Cintamani innkallar barnaföt

Fötin frá Cintamani.
Fötin frá Cintamani. Mynd/Neytendastofa

Cintamani hefur ákveðið að innkalla fjórar barnaflíkur en ástæðan er sú að bönd og reimar í flíkunum samræmast ekki lögum nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og staðalinn ÍST EN 14682:2007 um öryggi barnafatnaðar. 

Á vef Neytendastofu er á það bent að bönd í hálsmáli barna yngri en 7 ára eru ekki leyfileg. Þá eru bönd í hálsmáli barna sjö til fjórtán ára leyfð innan ákveðinna marka. Auk þessa eru bönd í mitti leyfð innan ákveðinna marka en ekki er leyfilegt að hafa hangandi bönd/reimar neðan úr faldi á barnaflíkum sem ná niður fyrir klof. 

Cintamani býður öllum viðskiptavinum sínum sem keypt hafa umræddar flíkur að snúa sér til Cintamani og fá aðstoð starfsfólks við að fjarlægja böndin úr fatnaðinum þeim að kostnaðarlausu. 

Neytendastofa hvetur þá sem keypt hafa umræddan barnafatnað að snúa sér til verslana Cintamani svo að hægt sé að gera viðeigandi lagfæringar. 

mbl.is