Jafnvel 50 sinnum stærra en gosið á föstudaginn

Hraunið hefur runnið bæði til austurs og vesturs.
Hraunið hefur runnið bæði til austurs og vesturs. Ljósmynd/Ármann Höskuldsson

„Það sem við vitum er að það hófst verulegt eldgos, mun stærra en það sem var fyrir tveimur dögum. Það er margfalst stærra, hvort það er 10 eða jafnvel 50 sinnum stærra. Gosið er allavega miklu stærra,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, um gosið sem stendur yfir í Holuhrauni.

„Milli sjö og átta í morgun var um kílómetra breiður og þrigga kílómetra langur hrauntaumur búinn að myndast frá gosstöðvunum. Við metum það svo, sem er vissulega mjög gróft áætlað, að það séu um 1.000 rúmmetrar á sekúndu að koma upp úr þessari sprungu. Til samanburðar renna tæplega 200 rúmmetrar á sekúndu í Jökulsá á Fjöllum,“ segir Magnús Tumi.

Vefmyndavélar Mílu góðar í góðu skyggni

„Vefmyndavélar Mílu (hér og hér) sýna svæðið mjög vel, þegar skyggni er gott, og þær sýna að það er fullur gangur í þessu ennþá.“ H

ann segir ekkert vitað um hversu lengi gosið muni halda áfram. „Það gæti staðið í einhverja klukkutíma með þessum krafti, eða einhverja daga og jafnvel vikur. Ef það yrði vikur, þá dregur nú væntanlega eitthvað úr þessu.“

Magnús Tumi segir að sprungan sýni að gat sé komið gat á kvikuganginn, þannig að upp úr honum flæðir heilmikið hraun. Hann segir mælingar ekki ekki liggja fyrir um hvort jafnmikið renni úr Bárðarbungu inn í kvikuganginn og upp úr sprunginni, en það gæti verið svipað magn.

„Við erum ekki með nákvæmar tölur til að geta fullyrt það á þessari stundu. Það verður mjög áhugavert í kvöld þegar það koma niðurstöður úr GPS mælingum eftir að gosið hófst.“ Þá komi nýjar mælingar um hvort og þá hvaða áhrif gosið hafi á þá gliðnun sem hefur mælst undanfarnar tvær vikur.

Flæði kviku í upphafi meira en í Eyjafjallajökli

„Þetta er töluvert eldgos. Þó svo það sé erfitt að bera svona gos saman við sprengigos eins og það sem varð í Eyjafjallajökli, þá er meira magn af kviku að koma upp úr sprungunni heldur en þegar mest lét í því gosi,“ segir Magnús Tumi.

Áhrifin eru þó töluvert öðruvísi. „Þetta er flæðigos, það er eiginlega engin gjóskumyndun svo að þetta er einn besti staður landsins til að fá svona verulegt gos. Þarna er nóg pláss og engin mannvirki í hættu eða slíkt. Við horfum bara á þessa gríðarlegu miklu landmótun.“

Óljóst hvað gerist næst

Magnús Tumi segir ekki ljóst hvað gerist næst. Ekki er útilokað að sprungan stækki í átt að jöklinum, og opnist jafnvel undir honum. „Það er möguleiki en það er óljóst.“ Að sama skapi gæti eldgosið hætt og eldsumbrotum lokið.

Eldgosið og þær hræringar sem hafa orðið á undanförnum vikum hafa verið bornar saman við Kröfuelda. Magnús Tumi segir það ekki fjarri lagi.

„Í meginatriðum er þetta mjög svipað. Kröflueldar voru allrosalegir og stóðu í tæpan áratug. Við höfum engar forsendur til að segja til um hvort þetta klárar sig í einum atburði sem er yfirstandand, eða hvort þetta sé upphafið á röð atburða.“

Viðbúnaður hefur ekki verið aukinn í sveitunum norðan Vatnajökuls, en viðbúnaður hefur samt sem áður verið nokkuð mikill undanfarna daga. Fólk frá Jarðvísindastofnun Háskólans, Veðurstofunni og erlendum samstarfsaðilum þeirra eru á svæðinu.

„Þetta er á annan tug manna og eru að gera mælingar eins og aðstæður leyfa. Þau eru okkar aðalupplýsingaveita um það sem í gangi er þarna. Það viðrar ekki til flugs í dag þannig að við munum treysta á, meðan ekkert stórkostlegt gerist, að þeir sem eru á svæðinu geti fylgst með því sem er að gerast.“

Magnús Tumi segir menn búna undir að sprungan lengist upp í jökulinn. „En það er ekkert sérstakt sem bendir til þess að það ætli að gera það á þessari stundu.“

Magnús Tumi í TF-SIF.
Magnús Tumi í TF-SIF. Friðrik
Gosið í Holuhrauni er enn öflugt eins og þetta skjáskot …
Gosið í Holuhrauni er enn öflugt eins og þetta skjáskot af vefmyndavél Mílu á Bárðarbungu sýnir. Úr vefmyndavél Mílu
Vísindamenn fengu ágætt tækifæri til að mynda gosið í morgun …
Vísindamenn fengu ágætt tækifæri til að mynda gosið í morgun áður en veðrið versnaði. Ljósmynd/Ármann Höskuldsson
Strókarnir eru 20-30 metra háir.
Strókarnir eru 20-30 metra háir. Ljósmynd/Ármann Höskuldsson
mbl.is