Segir Vigdísi fara með rangt mál

Páll Matthíasson, forstjóri LSH
Páll Matthíasson, forstjóri LSH Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar Alþingis, hafa farið með rangt mál um framlög til spítalans í fjárlögum 2014 og frumvarpi til ársins 2015. 

Þetta segir hann í pistli á heimasíðu Landspítalans og vísar þar með í viðtal við Vigdísi Hauksdóttur í bítinu á Bylgjunni í gær, þar sem hún sagði að um tíu milljörðum hefði verið veitt til spítalans á fyrrgreindum árum og að niðurskurður hefði þar með verið jafnaður. „Betra ef satt væri,“ segir Páll. „Mikilvægt er að við eigum uppbyggilegt samtal við fjárveitingavaldið um verkefni spítalans og fjármögnun þeirra. Það samtal verður að byggja á staðreyndum en ekki fullyrðingum sem standast ekki skoðun og færa umræðuna ekkert áfram.“

Rekstrargrunnur ekki í samræmi við verkefni

Hann segir ánægjulegt að ekki hafi verið horfið frá þeirri tækjakaupaáætlun sem lagt var upp með á síðasta ári „enda uppsöfnuð þörf síðustu ára og raunar áratuga mikil.“ Þá bendir hann á að í rekstrargrunn spítalans hafi verið bætt um 120 milljónum króna sem renna í nýja þjónustuþætti sem verið er að taka upp. „Um annað „nýtt fé“ til reksturs er ekki að ræða og ljóst að mjög langt er í land til að rekstrargrunnur spítalans sé í samræmi við þau verkefni sem honum eru falin, hvað þá að unnt sé að auka starfsemina.“ 

Hann segir að ný framlög til spítalans hefðu þurft að vera 16 milljarðar til þess að fullyrðing Vigdísar gæti staðist. „Samanlögð aukning í rekstrargrunn spítalans á nefndu tímabili er hins vegar 3,5 milljarðar auk þess sem nýtt framlag til stofnkostnaðar var um 2,8 milljarðar og hafa því verið veittir samtals 6,3 milljarðar króna til spítalans þessi tvö ár. Þetta er nokkuð fjarri þeim tíu milljörðum sem formaðurinn nefndi.“ 

„Staðreyndin er sú að í ár fær Landspítali um 10% minna fé til reksturs en hann fékk árið 2008, miðað við fast verðlag. Síðan þá hefur ekki einungis verið hagrætt gríðarlega í starfseminni, eins og formaðurinn benti réttilega á, heldur einnig bætt við miklum verkefnum,“ segir Páll í pistlinum.

Þyrfti 4% til viðbótar fyrir lögbundin verkefni

Þá bendir hann einnig á að samkvæmt skýrslu McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins sé kostnaður við hverja veitta þjónustueiningu Landspítalans um 58% lægri en á sambærilegum sjúkrahúsum í Svíþjóð og má rekja 12% af muninum til verðlags. „Eigi spítalinn að rækja þau verkefni sem löggjafinn ætlar honum þarf 4% hið minnsta til viðbótar í rekstrargrunn hans. Jafnvel með þeirri viðbót væri Landspítalinn enn langt frá því að hafa jafnsterkan rekstrargrundvöll og systursjúkrahús hans í Svíþjóð.“

Vigdís Hauksdóttir Alþingi
Vigdís Hauksdóttir Alþingi mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert