Átti ekki sjálfur hlutabréf í bankanum

Sigurjón Þ. Árnason.
Sigurjón Þ. Árnason. mbl.is/Þórður

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, átti ekki hlutabréf í bankanum né öðru félagi sem skráð var á í Kauphöll Íslands. Ástæðan var sú að hann taldi að ef hann seldi eða keypti bréf í bankanum gæti það verið túlkað sem vísbending fyrir markaðinn um að kaupa annað hvort eða selja.

Þetta sagði Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, í málflutningsræðu sinni en sérstakur saksóknari ákærði Sigurjón og þrjá undirmenn hans fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. „Eru einhverjar líkur á því að einstaklingur sem hugsar svona, hugsi um það í 228 daga, frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, að snuða alla hluthafa, að snuða markaðinn og snuða stjórnvöld? Nei, ég held að það séu ekki miklar líkur á því.“

Þá fór Sigurður einnig yfir ákæruna og kjarna málsins felast í eftirfarandi klausu úr henni: „Ákærði Sigurjón var ásamt Halldóri J. Kristjánssyni æðsti stjórnandi Landsbankans og bar samkvæmt verkaskiptingu þeirra á milli ábyrgð á verðbréfasviði Landsbankans. Sigurjón hafði bein afskipti af starfsemi EFL og gaf ákærða Ívari almenn fyrirmæli um þá háttsemi [...] þrátt fyrir að Yngvi Örn Kristinsson væri framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans og næsti yfirmaður ákærða Ívars samkvæmt skipuriti bankans. Ákærði Sigurjón hafði reglulegan aðgang að upplýsingum um háttsemina þar sem hann stýrði vikulegum fundum fjármálanefndar bankans og fékk auk þess daglega skýrslur þar sem staða bankans í eigin bréfum kom fram.“

Sigurður sagðist túlka þetta sem svo að ákæruvaldið líti þannig á að fundir fjármálanefndar hafi verið vettvangur Sigurjóns til þess að handstýra hegðun undirmanna sinna á markaði í 228 viðskiptadaga. „Formennskan í nefndinni gaf honum engin tækifæri til að ráðskast með eigin fjárfestingar bankans. Allar staðhæfingar og fullyrðingar í ákærunni, um að Sigurjón hafi, eða Ívar hafi gert eitthvað að undirlagi Sigurjóns, það er bara ekki eitt einasta sönnunargagn, ekkert vitni og ekkert sýnilegt skriflegt sönnunargagn frá þeim tíma sem atvik málsins urðu sem staðfesta þetta með einum eða neinum hætti.“

Hann benti á að 199 fundargerðir fjármálanefndar væru í málinu og í gegnum þær hefði hann þrælað sér. „Þar er ekki að finna eina né neina ákvörðun bankastjórnar um það hvernig á að haga viðskiptum daglega, vikulega, ársfjórðungslega eða árlega með hlutabréf í Landsbanka Íslands. Það er bara ekkert um það í fundargerðum fjármálanefndar.“

Einnig nefndi hann að þrjú tölvubréf væru í málinu þar sem nafn Sigurjóns kemur fyrir en ekkert þeirra var til meðákærðu í málinu eða snúi yfirleitt að sakarefninu.

Sigurður sagði einnig að ákæruvaldið misskilja ábyrgð bankastjóranna. Þrátt fyrir að verðbréfasvið hafi heyrt undir Sigurjón fóru bankastjórarnir báðir með stjórn allra málefna bankans. Verkaskipting hafi ekki breytt ábyrgðinni. Á fundum fjármálanefndar hafi verið bankastjórarnir báðir og framkvæmdastjórar bankans. Um var að ræða upplýsingafund fyrir þá þannig að þeir gætu fylgst með áhættuþáttum í fjárfestingahluta bankans. Aðeins tveir menn hafi farið með ákvörðunarvald á fundinum, Sigurjón og Halldór.

Tengdi Gunnar Andersen við málið

Ennfremur minnti Sigurður á að Sigurjón hafi hafið störf í bankanum árið 2003 en Halldór hefði þá starfað þar í fimm ár, eða frá 1998. „Þá starfaði við hlið hans, yfir alþjóða- og fjármálasviði, Gunnar Þ. Andersen. En hann hrökklaðist úr starfi í nóvember 2002 þegar honum var það ljóst að fyrrum fjandvinur hans frá Hafskipsárunum, Björgólfur Guðmundsson, væri ásamt syni sínum að eignast ráðandi hlut í bankanum.“

Gunnar var ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins í apríl 2009 en Kauphöllin sendi mál Landsbankans - og annarra banka - til FME í janúar 2009. Eftir skoðun FME var málið sent til sérstaks saksóknara 19. október 2010, þegar Gunnar var enn forstjóri FME, og þá á um hundrað blaðsíðum. „Þar er því haldið fram að Sigurjón og Halldór og fimmtán aðrir starfsmenn Landsbankans hafi gerst sekir um markaðsmisnotkun allt frá maí 2003 til 3. október 2008.“

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert