Andlát kvennanna var hörmulegt slys

Báðar konurnar fundust látnar í Bleiksárgljúfri.
Báðar konurnar fundust látnar í Bleiksárgljúfri. mbl.is/Eggert

Rannsókn á andlátum Pino Becerra Bolanos og Ástu Stefánsdóttur er lokið. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekkert bendi til annars en að um hörmulegt slys hafi verið að ræða. Þær fundust báðar látnar Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð, Pino hinn 10. júní sl. og Ásta 15. júlí sl.

Líkt og mbl.is hefur áður greint frá leiddi krufning líkanna í ljós að Pino lést af völdum áverka sem hún hlaut eftir hátt fall fram af um 30 metra háum fossi sem er í Bleiksársgljúfri. Ásta lést aftur á móti af völdum drukknunar eða ofkælingar.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi sá um rannsókn málsins. Við rannsókn málsins var meðal annars rætt við nokkra sem talið var að gætu sagt til um hvar Ásta og Pino fóru um, en þær dvöldu í sumarbústað um hvítasunnuhelgina í nágrenni við gljúfrið. Talið var að þær hefðu farið í gljúfrið til að baða sig, en föt þeirra fundust við það. 

Síðast spurðist til þeirra aðfaranótt sunnudagsins 8. júní. Leit að konunum hófst þriðjudaginn 10. júní, en þær höfðu ekki skilað sér til vinnu fyrr um daginn. Lík Pino fannst þegar um kvöldið en lík Ástu fannst ekki fyrr en rúmum mánuði síðar. 

Leitin að líki Ástu var verulega umfangsmikil. Leitað var við og í gljúfrinu sjálfu, án árangurs. Líkið fannst loks í neti sem sett hafði verið upp í gljúfrinu í fyrstu skipulögðu ferð björgunarsveita á staðinn, en ætlunin var að fara á tveggja til þriggja vikna fresti og bar Kennslanefnd ríkisins kennsl á líkið. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Selfossi er ekki hægt að tímasetja andlát kvennanna nákvæmlega. Aðeins er talið víst að þær hafi báðar látið lífið á tímabilinu frá aðfaranótt sunnudags til þriðjudagsins 10. júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert