„Sjallinn lifir áfram í Akureyrarhjörtum“

Mikið fjör var á kveðjusamkomu Stuðmanna í Sjallanum.
Mikið fjör var á kveðjusamkomu Stuðmanna í Sjallanum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stuðmenn kvöddu Sjallann á Akureyri í gærkvöldi á fjölmennri samkomu þar sem stemningin minnti á fjörið á gullaldarárum hússins. Hlutverki þess sem samkomuhúss af gamla skólanum lýkur um áramót og nýir eigendur hyggjast breyta því í hótel.

Samkoman í gærkvöldi hófst með hanastéli, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri flutti síðan ávarp og sýnt var myndband sem sjónvarpsstöðin N4 tók saman um sögu hússins. 

Fyrirhugað var að akureyrski stórtenórinn Kristján Jóhannsson stigi á svið en hann lá veikur á heimili sínu fyrir sunnan. Í skarðið hljóp Konnari af næstu kynslóð: systursonur Kristjáns, Örn Birgisson, og flutti nokkur lög. Þá steig á svið söngkonan ástsæla, Helena Eyjólfsdóttir, sem söng í húsinu í fjöldamörg ár með hljómsveit Ingimars Eydal og síðar hljómsveit eiginmanns síns, Finns Eydal. Hún flutti nokkur lög í gær við undirleik Stuðmanna.

Stuðmenn fluttu loks dagskrá með lögum af hljómplötunni Tívolí frá 1976 ásamt ýmsu fleira góðgæti og að því loknu hófst dansiball þar sem stemningin var líklega ekki minni en í gamla daga, þegar unga kynslóð þess tíma troðfyllti húsið helgi eftir helgi og mátti meira að segja sjá suma úr þeim hópi í gær. Dansgólfið fylltist strax og fyrstu tónarnir voru slegnir og svitadropar féllu í lítratali þar til Stuðmenn kvöddu þegar komið var fram á rauða nótt.

Snemma kvölds fór Valgeir Guðjónsson Stuðmaður með frumsaminn kveðjubrag - Óð til hússins - sem þegar leið á ballið var sunginn við glænýtt lag. „Við komum hér fyrst, Stuðmenn,  árið 1975. Við vorum málaðir í framan og ég man alltaf að hljómsveit Ingimars Eydal eins og hún lagði sig - þau reyndar stóðu öll, og horfðu á okkur eins og við værum einhver algjör fífl að sunnan, sem síðan reyndist vera rétt!“ sagði Valgeir áður en hann flutti kvæðið.

Kveðjubragurinn hefst á þessu erindi:

Endar dansinn enn á ný, undir ljósum björtum. Sjallinn lifir áfram í, Akureyrarhjörtum.

Gera má ráð fyrir að Valgeir reynist þarna sannspár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert