Svínið Sóli er komið heim

Svínið og hundurinn léku sér saman á veginum.
Svínið og hundurinn léku sér saman á veginum.

„Já, hann Sóli er kominn heim,“ segir Ingvar Helgason, eigandi svínsins Sóla, sem spókaði sig um í Mosfellsdal í dag. „Hann hefur aldrei áður farið út á veg en það er nýfluttur hingað labradorhvolpur og þeir eru miklir félagar. Hvolpurinn hljóp út á veg og Sóli, þessi elska, elti hann.“

Sóli, eða Sólmundur eins og hann heitir fullu nafni, er átta mánaða gamall. Hann býr í góðu yfirlæti á Tjaldanesi í Mosfellsdal þar sem hann er heimilisdýr.

„Hann er alltaf laus inni á Tjaldanesi og okkur til mikillar skemmtunar. Honum tókst að komast yfir rúlluhlið, nokkuð sem hann á nú ekki að geta gert, og út á veg. Ég þarf augljóslega eitthvað að skoða þetta hlið,“ segir Ingvar. 

„Hann meiddi sig aðeins í löppinni þegar hann fór yfir hliðið, vonandi lærir hann af því.“

Ingvar segir að Sóli og hvolpurinn hafi nú ekki komist langt upp á veginn og voru þeir sóttir fljótlega. Aðspurður hvort Sóli fari í skammakrókinn segir Ingvar það ekki ólíklegt.

„Hann verður skammaður eitthvað pínu, það þýðir ekkert annað,“ segir Ingvar og hlær.

Svín gengur laust í Mosfellsbæ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert