„Ofbeldi er aldrei svar“

Hátt á þriðja hundrað manns komu saman í garðinum við franska sendiráðið klukkan 18 í kvöld. Franska fánanum og fána Evrópusambandsins var flaggað í hálfa stöng og við fánastangirnar lögðu gestir blóm, skriffæri og kerti.

Tólf stórum útikertum var raðað við stangirnar, einu fyrir hvert þeirra sem féllu í árásinni í gær. Þá röðuðu gestir einnig sprittkertum sem mynduðu orðið Charlie og á eftir fylgdi hjarta.

„Við erum hér til að styðja frönsku þjóðina vegna þess sem gerðist í gær,“ sagði Abel í samtali við blaðamann mbl.is. „Þetta var hræðilegt og við erum mjög sorgmædd. Við erum hér til að segja: áfram frelsið og fólk má skrifa það sem það vill skrifa, tigna það sem það vill tigna. Ofbeldi er aldrei svar.“

Sendiherra Frakklands á Íslandi ávarpaði hópinn á ensku og frönsku. Þegar hann hafði lokið máli sínu hrópuðu viðstaddir „Charlie, Charlie“ í rúmlega mínútu.

Nokkrir héldu skriffærum á loft og þá höfðu margir meðferðis slagorðið Je Suis Charlie eða Ég er Charlie.

Fundargestir voru hvattir til að mæta með penna eða blýanta, en með skriffærum hafa morðin á skopmyndateiknurum verið fordæmd á táknrænan hátt.

Rúmlega hundrað þúsund manns komu saman á samstöðufundi í París í gærkvöldi. Þá var einnig boðað til sambærilegra funda í borgum og bæjum í landinu og í öðrum löndum heimsins. Ráðist var inn á ritstjórnarskrifstofur franska ádeiluritsins Charlie Hebdo í París í gærmorgun og kostaði árásin tólf manns lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina