Laun karls lækkuðu vegna kæru

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Rax

Yfirfara þarf launasetningu háskólamenntaðra starfsmanna Kópavogsbæjar, huga að hæfi þeirra með tilliti til menntunar og breyta gerð auglýsinga um laus störf hjá bænum. Allt vegna kæru starfsmanns, konu, sem taldi sig njóta lægri launakjara fyrir sömu störf og karl á sama sviði.

Konan er með diplóma frá Háskólanum á Bifröst en maðurinn BA-gráðu í sagnfræði auk þess að njóta kennsluréttinda og hafa lokið 40 einingum í viðskiptafræði. Bæði starfa þau sem launafulltrúar en á meðan karlmaðurinn fékk greidd laun samkvæmt kjarasamningi Huggarðs, sem er félag innan Bandalags háskólamanna, fékk konan greitt samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Kópavogsbæjar. Var maðurinn með 7% hærri laun.

Sökum þessa kærði konan Kópavogsbæ til kærunefndar jafnréttismála. Fyrir nefndinni komu fram þær röksemdir bæjarins að starfsmat hefði þrívegis verið gert á kjörum beggja starfsmanna. Niðurstöður hafi í öllum tilvikum verið samhljóða og hafi leitt af sér marktækan mun milli starfanna sem jafna mætti til 7% launamunar karlmanninum til tekna. Sérstaklega var tekið fram að starfsmatið sé kynhlutlaust en það er auk þess í höndum starfsmatsteymis sem skipað er starfsmatsráðgjöfum en þeir eru ráðnir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Einnig hélt bærinn því fram að málefnalegur launamunur hefði verið byggður á mismunandi menntun starfsmannanna. „Það sé samfélagslega viðurkennd staðreynd, sem meðal annars birtist í mismunandi verðmæti kjarasamninga, að málefnalegur og réttlætanlegur munur sé á milli háskólamenntaðra starfsmanna og þeirra sem ekki hafi háskólamenntun.“

Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að Kópavogsbæ hefði borið að að sýna fram á að hin aukna menntun karlmannsins nýttist í starfinu og réttlætti þar af leiðandi hærri laun. Það hafi ekki verið gert né liggi nokkuð fyrir um að háskólamenntun karlmannsins leiði til þess að hann teljist verðmætari starfskraftur. „Launamunur milli kæranda og þess karlmanns sem hún ber sig saman við verður því ekki réttlættur með mismunandi menntunarstigi.“ Kærunefndin komst því að þeirri niðurstöðu að Kópavogsbær hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launa konunnar.

Laun mannsins lækkuð

Úrskurðurinn hafði það í för með sér að manninum er nú launaraðað samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Kópavogsbæjar og lækkuðu laun hans því til samræmis við konunnar.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að bærinn uni úrskurði kærunefndarinnar. Hann feli í sér að greiða beri sömu laun fyrir sambærileg störf og að háskólamenntun sem ekki tengist starfinu beint réttlæti ekki launamun. Í úrskurðinum felist því að laun karlmannsins verði lækkuð til samræmis við laun konunnar.

Úrskurðurinn hefur frekari áhrif því í minnisblaði starfsmannastjóra og bæjarlögmanns um hann segir að niðurstaðan hafi fordæmisgildi varðandi gerð starfslýsinga og auglýsinga um laus störf hjá bænum. Héðan í frá þurfi þannig að gæta að því að gera menntunarkröfur í starfslýsingum þar sem krafist er þeirrar menntunar sem sannanlega nýtist í viðkomandi starfi. Jafnframt þurfi að gæta þess að sú menntun sé grundvöllur launasetningar að því gefnu að starfsmaðurinn hafi aflað sér þeirrar menntunar.

Þá verði við gerð auglýsinga um laus störf að gæta þess að krefjast ekki menntunar nema hennar sé skýlaust þörf til að starfsmaður geti gegnt starfinu.

Laun annarra gætu einnig lækkað

Þá getur úrskurður kærunefndarinnar einnig haft áhrif á launakjör fleiri starfsmanna því hann er jafnframt talinn hafa fordæmisgildi varðandi launasetningu almennt hjá háskólamenntuðum starfsmönnum. „Starfsmannadeildin mun því þurfa að yfirfara launasetningu háskólamenntaðra starfsmanna hjá Kópavogsbæ til að tryggja að launasetning þeirra sé í samræmi við áðurgreindan úrskurð,“ segir í ofangreindu minnisblaði. „Að lokum þarf að huga að hæfi starfsmanna til að gegna störfum með tilliti til menntunar.“

Ármann segist lítið geta tjáð sig um þá vinnu sem fyrir höndum er en fara verði yfir málið frá a til ö. Málið snerti þó ekki mjög marga starfsmenn. Spurður hvort hann búist við að fleiri starfsmenn bæjarins lækki í launum segir hann: „Ég útiloka ekkert. Við þurfum að fara yfir þetta og sú vinna getur hugsanlega leitt til þess að það lækki laun hjá einhverjum, en ég sannarlega vona að svo verði ekki.“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina