„Kveðum verðbólgudrauginn niður“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Kjarasamningar við lækna og framhaldsskólakennara geta ekki gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan eru á vinnumarkaði. Forsætisráðherra hefur áhyggjur af því að fámennir hópar geti í krafti aðstöðu sinnar knúið viðsemjendur sína til verulegra frávika frá markaðri launastefnu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að hann sé sammála þeim sem tala um nauðsyn þess að bæta stöðu fólks með lágar tekjur og millitekjur. Hann hafi talað fyrir því við gerð kjarasamninga að í auknum mæli sé litið til krónutöluhækkana, enda sé það sanngjörn leið og líkleg til að leiða til sátta. „Oft hafa krónutöluhækkanir á lægstu laun ratað upp allan launastigann í formi prósenta, en slíkt er ekki náttúrulögmál. Það er t.d. athyglivert að í nýrri skýrslu heildarsamtaka á vinnumarkaði, „Í aðdraganda kjarasamninga“, sést að launadreifing var jafnari á árinu 2014 en á árinu 2006 – að laun þeirra launalægstu eru nú stærri hluti af launum þeirra launahæstu en áður. Það er mikilvægt að áfram sé haldið á sömu braut og í þeirri vinnu eru krónutöluhækkanir e.t.v. besta verkfærið,“ segir Sigmundur Davíð.

Að sama skapi sé mikilvægt að draga úr neikvæðum jaðaráhrifum skatt- og velferðarkerfisins, sem leiða oft til þess að kauphækkanir skila sér ekki til fulls í hærri ráðstöfunartekjum. Slíkt sé ótækt og brýnt að ríkisvaldið, launþegahreyfingar og vinnuveitendur taki höndum saman til að vinna á vandanum.

Sigmundur Davíð nefnir einnig að samningar við lækna og framhaldsskólakennara geti ekki gefið fordæmi fyrir samninga sem eru í vændum. „Í þeim samningum voru gerðar verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu stéttanna. Samningarnir eru einnig til mun lengri tíma, eða tæpra þriggja ára. Þeir geta því ekki gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan eru á vinnumarkaði.“

Árangurinn sögulegur

Kaupmáttur launa hafi aukist um 5,3% síðastliðna tólf mánuði, sem verði að teljast verulega góður árangur. Margir eigi þátt í þeim árangri, sem m.a. skýrist af ábyrgum kjarasamningum á síðasta ári. „Þar var samið um 6,6% hækkun sem skilaði sér að nær öllu leyti í auknum kaupmætti vegna þess mikla verðstöðugleika sem ríkti á tímabilinu. Raunar er árangurinn sögulegur, því kaupmáttur launa mældist í nóvember síðastliðnum hærri en nokkru sinni áður eins og upplýsingar frá Hagstofu Íslands sýna glögglega. Lægri skattaálögur á heimili og leiðrétting fasteignaskulda hafa svo enn frekar aukið kaupmátt heimilanna. Staðan er því betri en oftast áður og sem betur fer er eitthvað til skiptanna. Nú ríður hins vegar á að óttinn við að missa af hlutdeild í afrakstrinum verði ekki til þess að minna verði til skiptanna fyrir alla.“

Að lokum segir Sigmundur Davíð að mikilvægt sé að kunna að takast á við velgengni jafnt sem mótlæti. „Við skulum halda áfram á leið aukins kaupmáttar með sameiginlegu átaki því það kemur heimilum og fyrirtækjum best. Félagsleg velferð og öflugt atvinnulíf haldast í hendur. Kveðum verðbólgudrauginn niður og stöndum saman að því að auka kaupmátt enn meira.“

mbl.is