Búa sig undir vonskuveður

Það má búast við því að færð spillist þegar líður …
Það má búast við því að færð spillist þegar líður á daginn mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Búist er við vonskuveðri frá því eftir hádegi fram á nótt. Skyggni verður lélegt vegna snjókomu og skafrennings og búast má við að ferðalög yfir heiðar og fjallvegi verði erfið eða ómöguleg. Veðrið gengur niður sunnan- og vestanlands í kvöld en um miðnætti norðaustan til á landinu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Starfsmenn við snjóruðning í Reykjavík eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir veðurofsann og hafa verið að síðan í nótt að ryðja burt sem mestu af snjónum sem hefur kyngt niður síðasta sólarhringinn. Byrjað var að ryðja um fjögurleytið í nótt, bæði götur og stíga, og eins að salta og sanda. Veturinn hefur verið óvenjuerfiður og hefur þurft að hreinsa götur og stíga nánast alla daga frá því í lok nóvember.

Spá miklum hvelli

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að það hvessi hratt um hádegisbilið suðvestanlands og fari að snjóa fljótlega upp úr því. Spáð er miklum hvelli sem gengur nokkuð hratt yfir landið og á láglendi sunnan- og vestanlands nær að hlána. Suðvestanlands er útlit fyrir allt að 25-28 m/s í eftirmiðdaginn og er vakin athygli á einkar erfiðum akstursskilyrðum á Reykjanesbraut á milli kl. 13 og 17. Hviður allt að 40-55 m/s á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðantil á Snæfellsnesi. Eins vestantil undir Eyjafjöllum. Snjóbylur verður á flestum fjallvegum og eins a.m.k. fyrst í stað um tíma á láglendi á undan skilum óveðurslægðarinnar.

Á höfuðborgarsvæðinu er nú hæg suðlæg átt og él. Frost 0 til 5 stig. Vaxandi suðaustanátt með morgninum, 15-25 m/s síðdegis og hlýnar um stund. Snjókoma og síðar slydda eða rigning. Snýst í sunnan 15-23 með slydduéljum og kólnar aftur í kvöld. Hægari um miðnætti.

Veðurspá fyrir landið næsta sólarhringinn:

Suðlæg átt, víða 3-8 m/s. Stöku él SV-til, annars yfirleitt skýjað með köflum. Frost 0 til 8 stig. Ört vaxandi suðaustanátt um hádegi, 18-28 m/s um þrjúleytið með mjög snörpum vindhviðum við fjöll S- og V-lands en hvessir N- og A-til í kvöld. Snjókoma í fyrstu, en síðan slydda eða rigning á láglendi. Talsverð úrkoma á S-verðu landinu og hlýnar um stund, en úrkomuminna NA-til. Snýst í sunnan 13-28 með slydduéljum í kvöld, hvassast vestast og kólnar aftur. Hægari um miðnætti.

Á miðvikudag:
Suðlæg eða breytileg átt, víða 5-10 m/s. Él víða um land, en samfelld snjókoma eða slydda austast fyrir hádegi. Frost 0 til 5 stig, en kringum frostmark með A-ströndinni.

Á fimmtudag:
Suðaustlæg átt, 5-13 m/s og snjókoma eða slydda sunnantil en úrkomulítið norðan heiða. Vaxandi SA-átt síðdegis, 15-20 m/s og talsverð rigning eða slydda um kvöldið einkum SA-til. Hiti um frostmark, en 0 til 4 stig syðst.

Á föstudag:
Suðlæg átt og lítilsháttar snjókoma norðantil fyrir hádegi en gengur í suðaustanstorm seinnipartinn með rigningu, einkum S- og V-lands og hlýnar.

Á laugardag:
Suðlæg átt, hlýtt og talsverð rigning um landið S-vert, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 3 til 9 stig. Kólnar með éljum V-til um kvöldið.

Á sunnudag:
Fremur hvöss sunnanátt, einkum síðdegis, rigning og hlýnar aftur en úrkomulítið NA-til.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu eð slyddu SA-til, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 5 stig.

Færð og aðstæður

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi. Hálka er á Hellisheiði en snjóþekja í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð efst á Landvegi. Snjóþekja er á Krísuvíkurvegi.

Það er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og Vestfjörðum og sumstaðar éljagangur.

Það er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á Norðurlandi.

Á Austurlandi eru hálkublettir. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni og sumstaðar él.

Veður á mbl.is

Það er eins gott að búa sig vel í dag …
Það er eins gott að búa sig vel í dag enda von á vonskuveðri. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Það er spáð vonskuveðri síðar í dag enn eini sinni.
Það er spáð vonskuveðri síðar í dag enn eini sinni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert