Vilja að bólusetning verði skilyrði fyrir leikskólavist

Bólusetning gegn mislingum endist ævina.
Bólusetning gegn mislingum endist ævina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætla að leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að leikskólar Reykjavíkurborgar taki ekki við óbólusettum börnum án læknisfræðilegra ástæðna.

Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að með þessu sé verið að bregðast við þeirri nýju ógn sem steðjar að í Vesturheimi en gamlir smitsjúkdómar eins og mislingar hafa verið að stinga þar upp kollinum síðustu mánuði.

„Hugmyndin er sú að Reykjavíkurborg, sem er stærsta þjónustufyrirtæki landsins, þá ekki síst gagnvart börnum, stígi fram með gott fordæmi um að við sem samfélag stöndum saman að því að þessir sjúkdómar dúkki ekki hérna upp,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. 

Hún segir að miðað verði við þær lágmarksbólusetningar sem mælt er með á hverju aldursári samkvæmt embætti Landlæknis. Aðspurð hvort að tillagan eigi sér erlenda fyrirmynd segir Hildur að bólusetningar séu algeng skilyrði fyrir leikskólavist í Bandaríkjunum. 

„Svo er umræða núna að dúkka upp í löndunum í kringum okkur út af þessari nýju vá, til dæmis í Berlín þar sem að barn dó úr mislingum,“ segir Hildur.

Hildur á erfitt að segja til um hvernig brugðist verði við tillögu flokksins á borgastjórnarfundi í dag. „En ég skil að fólki bregði og finnist þetta of mikið inngrip eða of íþyngjandi en ég er ekki sammála því. Ég er að reyna að huga í lausnum og finna leið til þess að stíga skref inn í framtíðina en passa það að gæta að meðalhófi. Við erum ennþá í þeirri lúxus stöðu að þetta er ekki orðið aðkallandi vandamál. Við erum ekki komin á hættustig enn sem komið er sem er mjög gott mál,“ segir Hildur. 

Hún segir að þar sem að vandamálið sé ekki orðið aðkallandi hér á landi verður miðað við að skilyrðin eigi aðeins við nýskráningar á leikskóla borgarinnar.

„Börn sem að eru í leikskólanum þegar verða ekki tekin úr sínu félagslega umhverfi og frá vinum sínum. Við erum sem betur fer ekki komin á þann stað ennþá. En með þessu viljum við stíga skref inn í framtíðina svo við þurfum aldrei að gripa til enn íþyngjandi aðgerða útaf því að hættan orðin aðkallandi.“

Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert