Tillagan róttæk og vanhugsuð

Dagur B. Eggertsson í pontu á borgarstjórnarfundi í dag.
Dagur B. Eggertsson í pontu á borgarstjórnarfundi í dag. Skjáskot af reykjavik.is

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, telur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að bólusetning verði skilyrði fyrir leikskólavist í borginni of róttæka og vanhugsaða. Segir hann jafnframt að hugsunin á bakvið tillöguna sé ekki hluti af samfélaginu eins og hann vilji hafa það.

Á borgarstjórnarfundi í dag hnykkti Dagur á því að hann væri talsmaður bólusetninga. „Ég tel aukaverkanir og áhættu sem þeim fylgja vera dvergsmáar miðað við ávinning einstaklings og samfélags sem nýtur góðs að því sem allra flestir séu bólusettir. Það er engin spurning í mínum huga að bólusetningar eins og þeim er still t upp hér á landi eru af hinu góða.“

Sagði hann þá leið að meina leikskólabörnum um skólavist séu þau ekki bólusett róttæka og ónauðsynlega.

„Í leikskólum sem eru fullir af bólusettum börnum eiga þau það sameiginlegt að þeim stafar engin hætta af óbólusettu barni því þau eru bólusett,“ sagði Dagur. Sagði hann jafnframt að það væri miklu frekar óbólusettu börnunum sem stafar hætta af smiti. „Það stafar engum hætta af óbólusettum nema að viðkomandi sé smitaður af tilteknum sjúkdómi.“

Bætti hann við að það væri ekki ráðlegt að setja óbólusetta saman í vistun eins og lagt er til í tillögu Sjálfstæðisflokksins. „Það endurspeglar það að tillagan sem augljóslega mínu mati sett af góðum hug en hún er ekki mjög mikið hugsuð eða unnin í samvinnu við þá sem meta þessi mál,“ sagði borgatstjóri.

Ítrekaði Dagur að hann væri þó ekki að halda því fram að það sé ómögulegt að alvarlegir smitsjúkdómar nái til Íslands. Nefndi hann mikilvægi þess að fara yfir umhverfið og umræðuna um hvernig að slíku skyldi staðið. Sagði hann að nýbúið væri að gera viðbragðsráætlun í borginni vegna heimsfaraldurs inflúensu. Í þeirri áætlun er gengið út frá viðmiðum og unnið með fagfólki og innviðum almannavarna.

Dagur lagði áherslu á að fyrst þyrfti að gera áhættumat, síðan huga að aðgerðum.

„Áður en borgarstjórn ætti að hugleiða það hvort hún samþykkti svona róttæka aðgerð væri algjört lágmark að láta gera áhættumat sem styddi þá nálgun sóttvarnarlaga sem ná utan um þennan málaflokk,“ sagði Dagur.

„Lögin bera með sér ná utan um hættu sem getur stafað af sjúkdómum en líka mannréttindum einstaklinga og hópa sem þurfa að vinna þegar aðgerðum er beitt.“

Las dagur upp úr svari sóttvarnarlæknis við fyrirspurn Halldórs Auðar Svanssonar borgarfulltrúa um bólusetningar. Þar kom fram að 2% foreldra í borginni kjósi að láta ekki bólusetja börn sín. Á fundinum í dag kom fram að það sé oftast gleymska eða trassaskapur sem veldur því að börn eru ekki bólusett. Í svarinu kemur fram að að mati sóttvarnarlæknis er vandinn hér á landi ekki jafn mikill og blásið hefur verið upp og að Íslendingar séu á svipuðu róli og nágrannaþjóðir þegar kemur að bólusetningum.

Fyrri frétt mbl.is:

Vilja að bólusetning verði skilyrði fyrir leikskólavist

mbl.is

Bloggað um fréttina