Ferðaþjónustuaðilar líti í eigin barm

Ferðamenn úti á ísnum við Jökulsárlón. Jónas bendir á auglýsingu ...
Ferðamenn úti á ísnum við Jökulsárlón. Jónas bendir á auglýsingu Icelandair þar sem fólk sést á ísnum og er notuð sem markaðsefni. Aðilar í ferðaþjónustu verði að líta í eigin barm. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Mikið hefur borið á umræðu um slysavarnir ferðamanna síðustu mánuði, en vegna slæms veðurs í vetur hefur verið mikil aukning á því að ferðamenn lendi í vandræðum um landið. Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, segir þó margt villandi í umræðunni og óþarfi sé að benda aðeins á vankunnáttu ferðamannanna, þar sem aðilar í ferðaþjónustu verði einnig að axla ábyrgð.

Í síðustu viku var fjallað um ferðamenn sem fífluðust hálfnaktir á ísnum í Jökulsárlóni, en Jónas bendir á auglýsingu Icelandair sem sýnir fólki úti á ísnum og er notuð sem markaðsefni. Þá hafi mynd af Dorrit Moussaieff, forsetafrú, þar sem hún sat á ísnum farið víða um heim. „Það eru oft tvær hliðar á málunum. Við verðum að horfa í eigin barm og hætta að blóta fólki, þó ég sé ekki að afsaka eða réttlæta þetta.“

Ferðamenn hunsa merkingar og fara hættulega nálægt brúninni við Gullfoss.
Ferðamenn hunsa merkingar og fara hættulega nálægt brúninni við Gullfoss. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

1,5 milljón ferðamanna á þessu ári

Jónas segir ferðaþjónustuaðila horfa fram á hátt í eina og hálfa milljón ferðamanna á þessu ári séu farþegar skemmtiferðaskipa taldir með, en það er nærri fimmfalt meira en árið 2000. Á síðasta ári komu 997.556 ferðamenn hingað til lands samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu, en það var 23,5% aukning frá árinu áður. Heildarfjöldinn með farþegum skemmtiferðaskipa var þó um 1,1 milljón.

„Við finnum vel á eigin skinni hversu mikil aukning hefur verið síðustu árin,“ segir Jónas, en bendir á að með verkefninu Safetravel sem sett var af stað fyrir nokkrum árum síðan í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og ferðamálastofu, hafi tekist að stuðla að öryggi ferðamanna og fækka óþarfa útköllum. „Við erum að gera fullt af hlutum en það þarf meira til.“

Jónas segir mikilvægt að ferðamönnum sé stýrt með ákveðnum hætti, ...
Jónas segir mikilvægt að ferðamönnum sé stýrt með ákveðnum hætti, svo hægt sé að koma í veg fyrir það að þeir fari sér að voða. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Rúmlega 6.000 ferðamenn í vandræðum á síðasta ári

Árið 2014 sinntu björg­un­ar­sveit­ir Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar 2.500 verkefnum þar sem ferðamenn áttu í hlut. Lang­stærsti hluti þess­ara verkefna at­vika átti sér stað á þekkt­um ferðamanna­stöðum eða svæðum. Rúm­lega 6.000 ferðamenn komu við sögu í þess­um verkefnum.

Stærstur hluti þeirra ferðamanna sem um ræðir ferðast á eigin vegum, gróft á litið um 80%. Eru það ferðamenn á bílaleigubílum, farþegar hópferðabifreiða en einnig sést að stækkandi hópur, lítill þó ennþá hefur skipt á húsnæði og bifreiðum við íbúa hérlendis.

„Taka þarf stór skref er varða stýringu ferðamanna til að ná að fækka ofangreindum verkefnum verkefnum. Skiptir þar miklu að veitt sé aukið fé í merkingar og uppbyggingu á vegakerfi landsins svo og bættar veðurspár svo einhver dæmi séu tekin. Á sama tíma þarf að auka fjárframlög í slysavarnir ferðamanna, þar með talið Hálendisvakt björgunarsveita sem er orðinn gríðarlega mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu á hálendi landsins að sumarlagi,“ segir í ársskýrslu Landsbjargar um slysavarnir ferðamanna.

Þá segir jafnframt að verði þetta gert megi búast við að eftir nokkur ár hafi þessum atvikum fækkað og að mestu standi þá eftir atvik sem verða að teljast “eðlileg” það er orsök sé önnur en vöntun á merkingum, þjónustu og innviðum.

ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Mikilvægt að stýra ferðamönnum á náttúrusvæðum

Að sögn Jónasar vinnur Safetravel eftir kenningu um stýringu ferðamanna á náttúrusvæðum, þar sem hún verndi ekki aðeins náttúruna, heldur ferðamanninn líka. Þessi kenning skiptist í þrennt, og er þar í fyrsta lagi talað um ákveðna handstýringu sem snýr að staðsetningu þjónustu, göngustíga, skilta o.þ.h. sem stýrir ferðamanninum ákveðna leið. „Þetta erum við að einhverju leyti að gera en ekki mjög markviss. Þetta hefur frekar orðið til en verið búið til,“ segir Jónas. 

Í öðru lagi er talað um beina stjórnun, sem snýr að lögum og reglugerðum sem settar eru til að stýra ferðamanninum. Jónas segir þetta nánast ekkert notað, en hægt væri að nýta þetta t.d. með því að loka jöklum fyrir alla gangandi umferð ákveðna mánuði á ári, eða sekta fólk fyrir að fara þangað sem það má ekki fara. 

Í þriðja lagi er það fræðslan og upplýsingagjöfin, og hefur Safetravel einblínt á það. Hafa þar ýmsir aðilar komið undir einn hatt til að upplýsa ferðamanninn um rétta hegðun. Má þar nefna Íslandsstofu, Ísland allt árið, Vegagerðina, Samtök ferðaþjónustunnar, Sjóvá, Neyðarlínuna, Vatnajökulsþjóðgarð, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist og fjölda ferðaþjónustufyrirtækja um land allt.

Ferðamaður veður út í sjó við Reynisfjöru.
Ferðamaður veður út í sjó við Reynisfjöru. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Mörg jákvæð merki á lofti varðandi slysavarnir ferðamanna

Þá bendir hann á skjáupplýsingakerfi ferðamanna, en búið er að setja upp hátt í þrjátíu skjái víðs vegar um landið, sem sýna upplýsingar um færð, veður, aðvaranir o.s.frv. Stefnt er að því að skjáirnir verði orðnir samtals 50 fyrir lok ársins, en með skjáupplýsingakerfinu var stigið stórt skref í bættri upplýsingagjöf. 

Þá sé mikið lagt upp úr því að fólk geri ferðaáætlanir, þar sem þær geti leiðbeint björgunarsveitunum til að finna viðkomandi ef hann týnist á leið sinni. Þetta geti tryggt það að viðkomandi komi heill heim, og einnig sé hægt að senda færri til að bjarga fólki þar sem vitað er hvert á að fara. 

Loks segir Jónas að mörg jákvæð merki séu á lofti hvað varðar slysavarnir ferðamanna. Hið opinbera horfi á öryggismál ferðamanna sem einn af meginþáttum íslenskrar ferðaþjónustu. Flestar opinberar stofnanir horfi nú til þess að þjónusta ferðamenn og ferðaþjónustu en slík þjónusta er oft á tíðum stór þáttur í slysavörnum. Ferðaþjónustan sjálf er í auknum mæli að byggja upp kunnáttu í gerð öryggisáætlana og auka vitund sinna starfsmanna hvað varðar öryggismál og forvarnir.

Jónas segir það skipta miklu að veitt sé aukið fé ...
Jónas segir það skipta miklu að veitt sé aukið fé í merkingar og uppbyggingu á vegakerfi landsins, svo ferðamenn lendi síður í vandræðum. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Margir ferðamenn eru óvanir að keyra í íslenskum aðstæðum, og ...
Margir ferðamenn eru óvanir að keyra í íslenskum aðstæðum, og getur því fræðsla og upplýsingagjöf skipt sköpum. ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
mbl.is