Læknar vilja ekki vín í verslanir

Skiptar skoðanir á því hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum.
Skiptar skoðanir á því hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn því að frumvarp sem heimilar sölu áfengis í verslunum verði að lögum. Allar rannsóknir sýni að aukið aðgengi auki áfengisneyslu og þar með vanda sem leiðir af aukinni neyslu.

„Engin skynsamleg rök mæla með því að breyta núverandi fyrirkomulagi áfengissölu, þ.e. í sérverslunum. Eignarhald þeirra sérverslana er sérstakt skoðunarefni og þó því yrði breytt þarf ekki jafnhliða að færa sölu áfengis í matvöruverslanir,“ segir í umsögn Læknafélags Íslands um frumvarp um smásölu áfengis. 

Vísar félagið í umsögn annarra um frumvarpið og segir að fleiri en færri umsagnaraðilar hafi lýst sig andsnúna þessu frumvarpi með sambærilegum rökum og Læknafélag Íslands. „LÍ vill í þessu sambandi sérstaklega benda á umsögn embættis landlæknis. Þar er með skýrum hætti farið yfir þann vanda sem er vel þekkt afleiðing aukins frjálsræðis í sölu áfengis. LÍ tekur heilshugar undir umsögn embættis landlæknis,“ segir í umsögninni.

LÍ bendir einnig á umsögn umboðsmanns barna. „Varnarlausustu fórnarlömb ofneyslu áfengis eru börnin. Alþingi hefur nýlega lögfest Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna. Það er þversagnarkennt að ætla í framhaldi þess að samþykkja frumvarp, sem fyrirfram er vitað að muni hafa neikvæð áhrif á líf og uppvöxt barna og ungmenna sem búa við ofneyslu áfengis í nánasta umhverfi sínu,“ segir í umsögn Læknafélags Íslands.  

mbl.is