Vekja máls á aðgengi fatlaðra

Aðgengi fyrir fatlaða er víða ábótavant.
Aðgengi fyrir fatlaða er víða ábótavant. mbl.is/Ernir

Fjögurra manna teymi mun á mánudag leggja af stað í hringferð um landið til að vekja máls á aðgengi fatlaðra. Brandur Bjarnason Karlsson, sem er lamaður og bundinn við hjólastól verður með í för, en markmið ferðarinnar er að sýna hversu erfitt er að ferðast um Ísland í hjólastól.

„Fjöldi fyrirtækja í þjónustugeiranum eru ekki með þessi mál í lagi og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Við viljum auka meðvitund og fá fólk í lið með okkur til að stuðla að lausnum,“ segir Gísli Steinar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá True Adventure, og upphafsmaður verkefnisins.

Ekkert klósettaðgengi á 365 kílómetra leið

Gísli segist meðal annars hafa fengið ábendingu um það að ekki sé hægt að komast á almenningsklósett með góðum hætti fyrir fólk í hjólastól frá Hvolsvelli að Höfn í Hornafirði, en sú vegalengd er um 365 kílómetrar.

Áætlað er að verkefnið taki fimm daga, en komið verður við í Vík í Mýrdal, Héraði, á Akureyri og Hömrum áður en endað verður í Reykjavík. Mun teymið halda fundi á hverjum stað fyrir sig þar sem fólki verður boðið að koma og taka þátt í umræðum. Icelandair hotels styrktu verkefnið með því að veita teyminu gistingu á þessum stöðum, og munu fundirnir fara fram þar.

Komust ekki inn og þurftu að fara annað

Að sögn Gísla kviknaði hugmyndin þegar hann ætlaði að hitta Brand á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. „Hann var í rafmagnshjólastólnum sínum og við ætluðum að fara á viðburð á þessum stað. En við komumst ekki inn. Rafmagnshjólastóllinn hans Brands er of þungur til að lyfta svo við neyddumst bara til að fara eitthvað annað og gátum ekki tekið þátt í þessum viðburði,“ segir Gísli. 

Hann segist hafa verið afar ósáttur við þetta, þar sem það fylgi því mikil höfnun að geta ekki komist þangað sem manni langar. „Brandur er bara ekki velkominn þar sem ekki er hugsað út í þessar aðstæður,“ segir hann og heldur áfram: „Mér fannst ég verða að gera eitthvað. Þetta á ekki að vera svona og það þarf að finna lausn.“

Í kjölfarið setti hann sig í samband við Hörpu Ciliu Ingólfsdóttur, ferilhönnuð og byggingafræðing hjá Byggingafræðingafélagi Íslands, sem sérhæfir sig í aðgengi fatlaðra. Harpa rekur fyrirtækið Aðgengi og vildi Gísli vinna með henni í því að bæta aðgengi um allt land.

Reglum ekki fylgt eftir

Gísli bendir á að reglur séu um það hvernig aðgengi fyrir fatlaða á að vera, en þeim sé oft ekki fylgt eftir. „Þó það sé fatlaðramerki á klósetti er oft ekki aðgengi fyrir fatlaða þegar farið er inn á klósettið. Það eru ýmsir svona hlutir sem þarf að hugsa um,“ útskýrir hann.

Nú þegar hefur teymið skorað á nokkur fyrirtæki sem munu fara yfir sín mál og setja sér tímabundin markmið um það hvernig hægt er að leysa vandamál ef eitthver eru. Þá verður einnig bent á það sem er gott.

Opinberar stofnanir með lélegt aðgengi

Þá segir Gísli að opinber fyrirtæki eigi að vera til fyrirmyndar, en mörg séu það þó ekki eins og staðan er í dag. „Það eru fullt af opinberum stofnunum sem eru með afar lélegt aðgengi. Ef þau eru að halda viðburði eru þeir aðeins fyrir útvalda,“ segir hann.

Gísli segir það markmið sitt að a.m.k. 200 fyrirtæki verði búin að gefa út yfirlýsingu um að þau ætli að betrumbæta aðgengi eða séu búin að því þegar hringferðinni ljúki.

Eru allir þeir sem hafa áhuga á aðgengismálum hvattir til að mæta á fundina og taka þátt í umræðum. Auk Gísla og Brands verður Þorbjörn Þorgeirsson ljósmyndari með í för og aðstoðarmaður fyrir Brand.

mbl.is mun fylgjast með ferðalaginu næstu daga, en einnig er hægt að fylgjast með á Facebooksíðu Brassa.

Gísli Steinar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá True Adventure.
Gísli Steinar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá True Adventure.
Brandur Bjarnason Karlsson verður með í för, en hann er …
Brandur Bjarnason Karlsson verður með í för, en hann er lamaður fyrir neðan háls og bundinn hjólastól. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is