Kettir í höfuðborginni ráðast á lóur

Að veiða fugla er óneitanlega í eðli kattarins.
Að veiða fugla er óneitanlega í eðli kattarins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjölmargar lóur halda nú til á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að sjá þær í húsagörðum, fótboltavöllum og kirkjugörðum. Í kjölfarið hafa kettir verið í auknum mæli að drepa lóur og jafnvel draga þær inn á heimili sín. Að sögn dýralæknis er það ekki algengt að kettir ráðist á lóur. Er þó hægt að gera ráð fyrir því að lóurnar séu kaldar og þreyttar eftir kuldatíðina sem hefur verið hér á landi síðustu daga og séu því auðveld bráð. 

„Einn þeirra hljóp inn með særða lóu. Þá hafði hann bitið í lungun á henni og hún var að deyja. Þetta var alveg hræðilegt,“ segir kattaeigandinn Alexandra Björk Elfar, en hún lenti í því að kettirnir hennar drápu þrjár lóur á innan við 10 mínútum. Ein lóan drapst í fangi Alexöndru.

„Svo héldum við að þetta væri búið og kíktum út. Þá hafði hann slátrað annarri lóu beint fyrir utan. Ekki nóg með það heldur kom síðan kettlingurinn á heimilinu inn með þriðju lóuna,“ segir Alexandra sem segir að fleiri kattareigendur séu að lenda í svipuðum atvikum á höfuðborgarsvæðinu. 

Lóurnar augljóslega örmagna

Alexandra býr í Hafnarfirði og segir að það sé gífurlegur fjöldi lóa í kringum heimili hennar. Hún segir að þær séu augljóslega örmagna. „Þær eru allavega það örmagna að kettlingurinn gat drepið eina. Þetta eru stórir fuglar og hann varla loftaði fuglinum. Ég sé þær hérna fyrir utan hoppandi og skoppandi, þær geta varla flogið úr þreytu. Þegar maður keyrir framhjá þeim liggur við að maður þurfi að stoppa bílinn fyrir þeim og koma þeim frá götunni,“ segir Alexandra.„Síðan halda þær líklega að þær séu öruggar en það eru kettir hérna út um allt.“

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði fuglafræðingurinn Jóhann Óli Hilmarsson að lóurnar haldi frekar til í húsagörðum til þess að verða sér út um æti. Að sögn Jóhanns er jörðin er oft heitari í húsagörðunum og auðveldara að ná sér í æti þar í þessari miklu kuldatíð sem ríkt hefur síðustu daga.

Verður alltaf í eðli kattarins

Eftir að kettirnir komu inn með lóurnar ákvað Alexandra að halda þeim inni. „Ég er svo mikill dýravinur að ég get ekki horft upp á annan fugl deyja í fanginu á mér, mér þykir vænt um öll dýr.“ Að sögn Alexöndru eru kettirnir þrír allir fresskettir og geldir. Enginn þeirra er vanur því að koma inn með bráð. „Það er eins og þetta sé bara of auðvelt fyrir þá. En svo halda þessir kattakjánar auðvitað að þeir séu að koma með svaka gjöf til eigandans. Þetta er í þeirra eðli og mun alltaf vera“ segir Alexandra. „Ég svo sem skammaði þá ekki en ég hvæsti aðeins á þá því mér brá. Ég vil ekki líða það að þetta gerist aftur fuglsins vegna.“

Að sögn Alexöndru taka sumir kattareigendur þó annan pól í hæðina. „Ég veit að margir kattaeigendur hrósa köttunum sínum fyrir að koma inn með fugla en það er þeirra skoðun, það ala ekki allir upp eins. En ég vil ekki að þessi fallegi fugl hljóti þessi örlög.“

Alexandra segir það hafa verið hræðilega upplifun að fá hálfdauðan fuglinn inn í íbúðina. „Yngsta stelpan mín hágrét og skildi ekkert í þessu, það var blóð út um allt. Það var líka bara erfitt að sjá lóuna lognast útaf. Ég er svo viðkvæm fyrir deyjandi dýrum að ég táraðist. Þetta var alls ekki skemmtilegt.“ Að mati Alexöndru eru lóurnar augljóslega auðveld bráð fyrir kettina. „Ef að kettlingur sem er ekki orðinn ársgamall og veit ekki einu sinni hvað það er að koma inn með mús getur dregið inn lóu er þetta augljóslega of auðvelt fyrir hann.“ Hún segir að það sé erfitt að halda köttunum inni sem eru vanir útikettir. „Þeir mjálma og mjálma endalaust og vilja fara út en ég ætla að bíða með að hleypa þeim út í smá tíma þangað til lóan er búin að koma sér fyrir annar staðar. Þeir eru algjörar prinsessur en það er ekkert slæmt fyrir þá að vera aðeins inni.“

Algengara að kettir ráðist á þresti eða starra

Berglind Bergsdóttir, dýralæknir hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, hefur heyrt um það að kettir ráðist á lóur, þó það sé alls ekki algengt. „Það er auðvitað algengara að kettir séu að ráðast á minni fugla eins og þrestir og starra, lóur eru auðvitað svolítið stórir fuglar,“ segir Berglind í samtali við mbl.is. Fyrr í dag fékk Berglind til sín lóu sem hafði orðið fyrir árás kattar. „Ég ætlaði nú að reyna að lappa upp á hana en kötturinn hafði gatað á henni hálsinn þannig ég gat ekki gert mikið fyrir hana greyið. En það var fyrsta tilfellið í ár.“

Fyrri frétt mbl.is 

Lóan leitar að æti í húsagörðum

Heimiliskettir hafa verið að drepa lóur á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga.
Heimiliskettir hafa verið að drepa lóur á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. mbl.is/Ómar Óskarsson
Alexandra ásamt dóttur sinni Jöklu.
Alexandra ásamt dóttur sinni Jöklu. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is