Afar mikilvægt að öskra ekki

Byrjum að hlusta á börnin og unglingana, sagði Páll í …
Byrjum að hlusta á börnin og unglingana, sagði Páll í erindi sínu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ég sat á skrifstofunni minni með stúlku sem ég hafði oft hitt áður. Hún sagði skýrri röddu: Ef ég á að trúa á mig, þá verður þú að trúa á mig. Hún hafði skorið sig með rakvélarblöðum. Svona hóf Páll Ólafsson, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu, erindi sitt á TEDxReykjavík 2015 í Tjarnarbíó í dag. 

Sagðist hann hafa hitt börn í ýmsum aðstæðum, meðal annars börn sem vilja ekki lifa, börn sem hafa misnotað eiturlyf og börn sem vilja ekki fara í skólann.

Oft spyrji hann börnin af hverju þau eru í þessum aðstæðum og þá er svarið gjarnan: Enginn elskar mig, enginn gefur mér tækifæri, enginn sér mig eins og ég er í raun og veru.

Læra með því að fá annað tækifæri

Hvernig þurfum við að vera svo börn upplifi ekki þessar tilfinningar, spurði Páll og bætti jafnframt við: Getum við gert eitthvað svo börnin missi ekki trú á okkur fullorðna fólkinu.

Sagði hann að mikilvægustu eiginleikarnir sem börn þurfi að tileinka sér séu meðal annars samskiptahæfileikar og geta til að starfa í hóp, hlusta og tala. En erum við að kenna börnunum okkar það, spurði Páll og bætti við að fullorðna fólkið þurfi að vanda valið þegar kemur að aðferðum í uppeldinu. Afar mikilvægt er að öskra ekki og beita ekki líkamlegu ofbeldi.

Ef þú öskrar ferð þú of nálægt barninu og það mun ýta þér í burtu, þau munu öskra á þig. Börnin læra ekki með því að biðjast afsökunar, þau læra með því að fá annað tækifæri, sagði Páll og bætti við að mikilvægt væri að gefa þeim tækifæri til að bæta sig, gefa þeim eitthvað sem þau geta verið stolt af.

Ef þú ert í lokaðri stöðu, þá loka börnin huganum

Við getum ekki notað reiðan huga til að tala og leysa vandamál. Heilinn tekur yfir, blóðið flæðir út í útlimina svo við getum flúið hættuna og streymir ekki til heilans. Ef börnin eru hrædd þá geta þau bara rifist, sagði Páll.

Bætti hann við að mikilvægt væri að hugsa um líkamstjáninguna og hvort hún sýni að maður vilji í raun leysa vandamálið. Ef þú ert í lokaðri stöðu, þá loka börnin huganum, sagði Páll.

Rjúki unga fólkið inn í herbergi með látum hafi foreldrar nokkrar leiðir til að bregðast við. Hægt er að öskra og sýna reiði, hægt er að reyna að vekja skömm hjá unglingnum vegna hurðarinnar sem hann skemmdi eða gleðjast yfir því að hormónarnir séu loksins farnir að streyma og bjóða unglingnum jafnvel að skella hurðinni á ný.

Byrjum að hlusta á börnin og unglingana, sagði Páll og bætti við að mörgum börnum hefði verið bjargað af einhverjum í nærumhverfi þeirra sem gaf sér tíma til að hlusta á þau. Farðu og finndu þessi börn og hlustaðu á þau, sagði Páll. „Hjálpum þeim að vera það sem þau eru í raun og veru, ótrúleg og falleg.“

Páll Ólafsson, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu.
Páll Ólafsson, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu. Af vef TEDxReykjavík2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert