Óboðleg samlíking við mafíósa

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

„Það er alvarlegt þegar formaður stjórnmálaflokks lýsir því yfir að eitt byggðarlag umfram önnur einkennist af spillingu og yfirgangi. Það gerði Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata þegar hún sagði að Skagafjörður væri „Sikiley Íslands“ og vísaði þar til þess að þar þrifist mafíustarf.“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, á vefsíðu sinni í dag vegna þeirra ummæla Birgittu Jónsdóttur, kafteins Pírata, á Facebook fyrir helgi að Skagafjörður væri „Sikiley Íslands“. Tilefnið var umfjöllun á fréttavefnum Stundin um meinta spillingu sem þar ætti að þrífast. Birgitta svaraði fyrir ummælin á samfélagsmiðlinum í gær og sagðist elska Skagafjörð. Hún elskaði að sama skapi Ísland þó hún teldi landið vera „Sikiley Norðursins“.

Elliði bendir á að vörn Pírata hafi síðan gengið út á það að Birgitta hafi ekki átt við íbúa Skagafjarðar heldur Kaupfélag Skagfirðinga. Hins vegar væri engan veginn réttlætanlegt að líkja íslensku fyrirtæki við mafíuna á Sikiley sem stundi „morð, mansal, vændi, nauðganir og marga þá hryllilegustu glæpi sem hægt er að hugsa sér.“ Slík samlíking sé ekki boðleg „og alls ekki hjá stjórnmálaflokki sem í hinu orðinu segist vilja standa fyrir siðbót í stjórnmálaumræðu.“

Elliði segir að ekki verði hjá því horft að það sé slæmt fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni þegar eitt eða fá fyrirtæki verði allt umlykjandi. Það eigi þó ekki bara við um Skagafjörðinn heldur víðar um landið. Eðlilegt sé að stjórnmálamenn hafi áhyggjur af slíku. „Það réttlætir samt ekki að ákveðnum fyrirtækjum eða stjórnendum sé líkt við mafíósa sem óhikað hafa staðið fyrir morðum á fjöldanum öllum af stjórnmálamönnum.

Fréttir mbl.is:

Birgitta segist elska Skagafjörð

Tek­ur upp hansk­ann fyr­ir Skaga­fjörð

Seg­ir Skaga­fjörð „Sikiley Íslands“

mbl.is

Bloggað um fréttina