Viltu að Reykjavík verði borgríki?

Reykjavík.
Reykjavík. mbl.is/Golli

Hilmar Sigurðsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkur, lagði í dag fram tillögu þess efnist að hafinn verði undirbúningur að ráðgefandi íbúakosningu í Reykjavíkurborg þar sem spurt verði: „Vilt þú að Reykjavík verði sjálfstætt borgríki?“ Svarmöguleikarnir yrðu já og nei.

Í samtali við mbl.is sagði Hilmar að hann hafi lagt fram þessa tillögu sem svar við tillögu Höskuldar Þórhallssonar þess efnis að ríkið taki yfir skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli. „Þegar það sem gerðist í nefndarstarfi á Alþingi í morgun þegar tekin var í gegn með ofbeldi tillaga um að taka skipulagsvald af Reykjavíkurborg. Það fyllti mælinn,“ segir Hilmar.

Með tillögunni vill Hilmar að borgarbúar verði spurðir hvort þeir vilji kljúfa sig frá Lýðveldinu Íslandi og stofna borgríki. „Við þekkjum mörg borgríki í Evrópu sem gengur mjög.“

Hann segir enga umræðu hafa verið um tillöguna, en að fólki hafi fundist þetta athyglisvert. „Þessu var frestað til næsta fundar, sem er eðlileg afgreiðsla. Þegar maður hendir svona fram þarf fólk tíma til að kynna sér málið.“

Hann segir þó að hann leggi þetta fram einn og sé tillagan ekki komin frá meirihlutanum í borginni. „Þetta er alveg að eigin frumkvæði.“

Einn maður - eitt atkvæði

Hann segir tillöguna tengjast umræðu um atkvæðavægi á Íslandi, þar sem hann segir atkvæði íbúa í höfuðborginni vega mun minna en atkvæði fólks í landsbyggðarkjördæmum, og að atkvæði kjósenda í Suðvesturkjördæmi vegi enn minna en í Reykjavík.

„Það væri gaman ef það myndi skapast smá umræða út frá þessu,“ segir Hilmar.

Á Facebooksíðu sinni skrifar Hilmar:

„Ég á sæti í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkur og var að leggja þar fram eftirfarandi tillögu sem eðlilega var frestað.

Í ljósi framkomins frumvarps til laga á Alþingi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli, þingskjals 478, 361. mál, samþykkir Stjórnkerfis- og lýðræðisráð hefja undirbúning að ráðgefandi íbúakosningu í Reykjavíkurborg þar sem spurt verður:

Viltu að Reykjavík verði sjálfstætt borgríki?

með svarmöguleikunum já eða nei

Við undirbúning kosningarinnar verði í fyrstu umferð leitað eftir umsögn borgarlögmanns um tillöguna. Íbúakosningin verði haldin í gegnum rafrænt kosningakerfi sem Þjóðskrá hefur til ráðstöfunar. Allir íbúar á kosningaaldri í Reykjavíkurborg eigi rétt til þátttöku í kosningunni.

Greinargerð:

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til Alþingis er ljóst að vegið er þar gróflega að skipulagsvaldi Reykjavíkurborgar og að flutningsmenn tillögunnar ganga gegn viðteknum hugmyndum um forræði sveitarfélaga á eigin skipulagsmálum. Atkvæði hvers borgarbúa er þegar um þriðjungi minna virði en íbúa utan höfuðborgarsvæðisins og ljóst er að í krafti þess er verið að leggja til að þröngva í gegn breytingu sem ekki fengist samþykkt ef atkvæði á Íslandi væru jöfn, óháð búsetu. Það eru eðlileg og sjálfsögð mannréttindi að hvert atkvæði á Íslandi sé jafnt og að hver og ein manneskja á kosningaldri hafi jafnt atkvæði.

Í ljósi framkomins lagafrumvarps á Alþingi er rétt að kanna hug borgarbúa til að stofna sjálfstætt borgríki og segja sig úr lögum við ríkið Ísland. Reykjavík hefur alla burði til að standa sig vel sem sjálfstætt borgríki og til staðar eru nær allir innviðir til að slík breyting gæti gengið hratt og örugglega fyrir sig.“

Hilmar Sigurðsson.
Hilmar Sigurðsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert