Hleypur um 100 km á dag í 52 daga

Írinn Nirbhasa Magee í 10 daga götuhlaupinu í New York …
Írinn Nirbhasa Magee í 10 daga götuhlaupinu í New York í Bandaríkjunum í fyrra.

Sjálfsagt eru ekki margir tilbúnir að hlaupa frá New York á austurströnd Bandaríkjanna til Los Angeles á vesturströndinni, um 2.800 mílna leið eða um 4.500 km, en Írinn Nirbhasa Shane Magee, sem hefur búið, starfað og æft í Reykjavík frá því haustið 2013, ætlar að gera gott betur og taka þátt í 3.100 mílna götuhlaupi, um 5.000 km, á 52 dögum í New York 14. júní til 4. ágúst nk.

Undanfarin tvö sumur hefur Nirbhasa tekið þátt í götuhlaupi í New York (The Self-Transcendence 10 Days Race) með góðum árangri, varð í 4. sæti 2013 og 3. sæti í fyrra. Þá hljóp hann ríflega 100 km á dag í 10 daga. „Næst er það lengsta götuhlaup heims og það verður öðruvísi,“ segir hann. Vísar til þess að í 10 daga hlaupinu sé nánast engin hvíld en í komandi hlaupi sé „aðeins“ hlaupið frá klukkan sex á morgnana til miðnættis á hverjum degi. Í 18 tíma á sólarhring samfellt í 52 sólarhringa.

Hugleiðslan hjálpar

Nirbhasa segir að í svona löngu hlaupi, um tveimur og hálfu maraþoni á dag, komi hugleiðslan að miklu gagni og því standi hann vel að vígi eftir að hafa stundað hugleiðslu í yfir áratug. Hann segir galdurinn felast í því að hugsa ekki um heildarvegalengdina heldur brjóta hlaupið niður í litla búta. Á hlaupum hugsi hann um hvað hann sé heppinn að vera til og sé þakklátur fyrir að búa á Íslandi, vera í góðri vinnu og svo framvegis.

Eðlilega þarf að æfa mikið fyrir svona átök. Nirbhasa byrjaði að velta fyrir sér þátttöku í hlaupinu fyrir um ári og hóf markvissar æfingar fyrir það í fyrrahaust. „Ég hljóp allt að 240 kílómetra á viku á undirbúningstímanum,“ segir hann.

Hann býr í miðbæ Reykjavíkur og hefur hlaupið mismunandi leiðir í borginni og nágrenni. Þannig hefur einn hringurinn verið með strandlengjunni upp í Mosfellsbæ, þaðan að Hafravatni og síðan niður Elliðaárdal og heim og annar sömu leið nema heim í gegnum Hafnarfjörð. Þar sem hlaupið er í nokkurs konar hringi í keppninni í New York hefur umhverfi Tjarnarinnar í Reykjavík reynst vel. „Ef hlaupið er í kringum báðar tjarnirnar er hringurinn míla og því jafngilda 60 hringir vegalengdinni sem þarf að hlaupa í New York á hverjum degi keppninnar,“ segir Nirbhasa.

Að þessu sinni eru 12 keppendur, 10 karlar og tvær konur, skráðir til leiks. Þeir voru vandlega valdir með fyrri árangur í erfiðum götuhlaupum að leiðarljósi. Nirbhasa segir að Finninn Ashprihanal Aalto, sem tekur þátt í hlaupinu í 13. sinn og hefur sigrað sjö sinnum, sé sigurstranglegur en hann hafi sett sér markmið. „Það er ómögulegt að segja til um hvað getur gerst í svona löngu hlaupi og því er helsta markmiðið mitt að viðhalda ánægjunni í hlaupinu og í öðru lagi að ljúka keppni.“

Írinn vinnur við umönnun á daginn og á það sameiginlegt með einstaklingnum, sem hann sér um, að stunda hugleiðslu. Fyrir vikið hafa þeir farið til útlanda saman og því gat hann æft við góðar aðstæður erlendis, þegar veðrið var sem leiðinlegast í vetur. „Það var gott að geta sameinað vinnu og hlaupin með þessum hætti og undanfarnar vikur hef ég hvílt mig fyrir átökin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »