850 milljarðar í stöðugleikaskatt

Áætlun um afnám fjármagnshafta var kynnt á fundi í Hörpu.
Áætlun um afnám fjármagnshafta var kynnt á fundi í Hörpu. mbl.is/Golli

Með frumvarpi um stöðugleikaskatt er lagður til 39% einskiptis skattur á heildareignir fallinna viðskiptabanka eða sparisjóða. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna.

Þetta kom m.a. fram á fundi þar sem aðgerðir til losunar fjármagnshafta voru kynntar í Hörpu.

Með frumvarpi um stöðugleikaskatt er lagður til 39% einskiptis skattur á heildareignir fallinna viðskiptabanka eða sparisjóða, eins og þær verða metnar 31. desember 2015. Skattinum er ætlað að mæta þeim neikvæðu áhrifum sem leiða myndu af óskertri útgreiðslu fjármuna í tengslum við lok slitameðferðar skattaðila. Eftir að skatturinn hefur verið greiddur, og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fá skattaðilar undanþágu frá lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Þeir aðilar sem nú sæta slitameðferð en ljúka henni með staðfestum nauðasamningi fyrir 31. desember 2015 teljast ekki til skattskyldra aðila.

Að auki er breytingum á lögum um gjaldeyrismál, sem Alþingi samþykkti í gærkvöldi, ætlað að treysta forsendur aðgerða ríkisstjórnarinnar til losunar fjármagnshafta og vega á móti þeirri áhættu sem skapast þegar fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti tiltekinna aðila eru losuð í skrefum.

Saman mynda þessi frumvörp heildstæða áætlun um lausn á þeim vanda sem útgreiðsla fjármuna frá föllnum fjármálafyrirtækjum til kröfuhafa við uppgjör þeirra myndi hafa að óbreyttu. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna. Stöðugleikaskilyrðin leysa vandann með áþekku umfangi og stöðugleikaskattur en samkvæmt annarri aðferðafræði og nálgun.

mbl.is