Að útdeila réttlæti ekki hlutverk Seðlabankans

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtals kom 2,4% af heildarfjárfestingu sem fór í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans á árunum 2011-2015 frá aflandsfélögum á lágskattasvæðum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bankans um gjaldeyrisútboð bankans á fyrrgreindu tímabili. Útboðin miðuðu að því að lækka stöðu svokallaðra aflandskróna og greiða þannig fyrir losun fjármagnshafta. Samtals fóru um 175 milljarðar í gegnum gjaldeyrisútboðin.

Seðlabankinn útilokar þó ekki að hlutfallið geti hæglega hafa verið mun hærra enda ekki haft yfirsýn yfir uppruna fjármagnsins. Bendir bankinn meðal annars á að ólíklegt sé að það hefði þjónað nokkrum tilgangi að geta komið í veg fyrir fjárfestingu frá lágskattasvæðum. Möguleikinn á slíku hafi verið ræddur í undirbúningsferlinu, en „niðurstaðan var að slíkt ákvæði væri tilgangslaust. Hefði félögum frá slíkum svæðum verið meinað að taka þátt í útboðunum hefði þeim verið í lófa lagið að flytja fjármuni sína til OECD-ríkis fyrir útboðið og taka þannig þátt. Við það hefði slóð fjármunanna mögulega rofnað og skattrannsóknarstjóri ekki fengið upplýsingar frá Seðlabankanum um tilvist þessara aflandsfélaga þó vissulega hefðu upplýsingar um endanlega eigendur fjármuna legið fyrir í báðum tilvikum. Þetta kann að skýra þá staðreynd að tiltölulega lágt hlutfall fjárfestingar kom frá skattaskjólum. Flestir þeirra sem höfðu eitthvað að fela í skattaskjólum hafa sennilega ekki viljað sýna á spilin,“ segir í skýrslu bankans.

Þá er farið yfir ýmsa gagnrýni sem bankinn hefur fengið á sig vegna gjaldeyrisútboðanna í gegnum árin. Meðal annars að ekki hafi verið komið í veg fyrir þátttöku aðila sem af ýmsum ástæðum eru taldi óæskilegir fjárfestar og óverðugir þess að hagnast á viðskiptum við Seðlabankann í þessum aðstæðum. Seðlabankinn svarar þessu í skýrslunni þannig að Alþingi hafi veitt bankanum umboð til að vinna að ákveðnum þjóðhagslegum markmiðum sem eru fyrst og fremst stöðuleiki verðlags og fjármálakerfis. Þá hafi gilt sérstök lagaákvæði um grundvöll fjárfestingaleiðarinnar. Bankinn hafi starfað innan þessa umboðs, en að „útdeila réttlæti í samfélaginu, með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra; er utan þess umboðs sem bankanum var fengið með lögum, og er í raun úrlausnarefni stjórnmálanna en ekki Seðlabankans.“

Bendir Seðlabankinn á að aðrar stofnandi hafi hlutverki að gegna við að framfylgja lögum landsins, meðal annars Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, lögregla, saksóknarar og svo dómstólar. Þá hafi bankinn ekki heldur getað aflað upplýsinga um fjárfesta frá lögreglu eða saksóknara með það í hyggju að útiloka fjárfesta sem kynnu að vera til rannsóknar hjá stjórnvöldum. Skort hafi lagagrundvöll til þess.

Skýrsla Seðlabankans um gjaldeyrisútboð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK