„Ætti ekkert að vera eitthvað mál“

Í dag fer fram viðburður á Austurvelli sem heitir „Frelsum geirvörtuna- Berbrystingar Sameinumst!“ Skipuleggjendur eru átta ungar konur og snýst viðburðurinn um að skapa umræðu um af­klám­væðingu geir­vört­unn­ar og eru kon­ur hvatt­ar til þess að vera þær sjálf­ar á Aust­ur­velli, hvort sem þær kjósa að vera í brjósta­hald­ara, án hans, eða ber­ar að ofan.

Viðburðurinn hófst klukkan 13 og þegar blaðamanni mbl.is bar að garði um klukkan 13:30 voru þegar fjölmargir mættir til þess að sýna baráttunni lið. Boðið verður upp á ræðuhöld og tónlistaratriði og svo er hægt að kaupa boli til styrktar baráttunni.

Verður vonandi normið

Karen Björk Eyþórsdóttir og Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir eru meðal skipuleggjenda. Þær segja að það hafi verið töluverð vinna að skipuleggja þennan viðburð en þær búast við góðri þátttöku.

„Nú þegar eru  fjölmargir komnir,“ segir Guðbjörg. „Það lítur út fyrri að fólk sé smá feimið til að byrja með við að vera bert að ofan en það á ekki að vera nein pressa að fara úr að ofan, alls ekki.“

„Til þess erum við að selja bolina,“ bætir Karen við. „Þá er hægt að sýna stuðning án þess að vera endilega ber að ofan.“

Aðspurðar hvort þær sjái fyrir sér að viðburðurinn geti verið haldin árlega hér eftir segja þær að það gæti vel verið. „En vonandi er þetta eitthvað sem konur geta gert á öllum sumardögum,verið berar að ofan. Við vonum að þetta verði bara normið,“ segir Guðbjörg.

„Við fengum náttúrulega fullkomið veður, við getum ekki kvartað yfir því,“ segir Karen en þegar að dagskrá lýkur á Austurvelli heldur gleðin áfram í Laugardalslaug. Þangað eru konar hvattar til þess að mæta berar að ofan.

Í netabol í Háskólanum og berbrjósta í þjónustuveri

Í lok mars tóku fjölmargar íslenskar konur og stúlkur sig til og „frelsuðu geirvörtuna“. Voru margar sem beruðu brjóstin á samfélagsmiðlum en aðrar tóku þetta skrefinu lengra og gengu um bæinn berar að ofan. Guðbjörg og Karen tóku báðar þátt í því. „Ég mætti í Háskólann í netabol sem var skemmtilegt,“ segir Guðbjörg. „Ég var að vinna í þjónustuveri og mætti á brjóstunum,“ bætir Karen við. „Það var svolítið skrýtið en mjög gaman,“ segir hún og hlær.

Aðspurðar hvort að sá dagur hafi haft áhrif á byltinguna svara Guðbjörg og Karen því játandi. „Mér finnst eins og það hafi veri svona fyrsta aldan í flóðinu. Þann dag vorum við einnig með viðburð í Laugardalslaug þar sem konur fjölmenntu berbrjósta,“ segir Karen.

„Við vorum einmitt að ræða það áðan hvað við vorum stressaðar í sundinu yfir því að stíga þetta skref út fyrir þægindarammann. En núna erum við bara hættar að pæla í þessu, þetta ætti ekkert að vera eitthvað mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert