„Forkastanleg vinnubrögð sjávarútvegsráðherra“

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Eggert Jóhannesson

Stjórn Landssambands smábátasjómanna (LS) sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í dag, þar sem þeir gagnrýndu reglugerðarsetningu sjávarútvegsráðherra um makrílveiðarStjórnin telur málefnið svo alvarlegt að hún lýsir fullu vantrausti á embættisfærslu ráðherra og krefst þess að reglugerðin verði dregin til baka.

Í tölvupósti frá þeim segir að atvinnuveganefnd Alþingis sé nú með til meðferðar frumvarp ráðherra um stjórn veiðar á NA-Atlantshafsmakríl.  Þar er lagt til að makrílveiðar smábáta verði kvótasettar. LS hefur mótmælt því og er ekki eitt um slíkt.  Með reglugerðinni fer ráðherra hins vegar fram hjá þeim ferli sem málið er í og kvótasetur veiðar smábáta.

Í tilkynningu frá LS segir meðal annars að reglugerðarsetningin sé einn fjölmargra gjörninga sem ráðherra hefur framkvæmt á þeim tveggja ára tíma sem hann hefur verið við völd og gefur tilefni til þess að segja hingað og ekki lengra. Landssamband smábátaeigenda lýsir hér með yfir fullu vantrausti á embættisfærslu ráðherra og krefst þess að hún verði dregin til baka.

Tilkynning LS í heild:

„Frá því makrílveiðar smábáta hófust árið 2010 hefur þeim verið stjórnað með sóknarmarki. Að fengnu veiðileyfi er viðkomandi heimilaðar veiðar úr ákveðnum potti þar sem magnið hefur verið ákveðið af ráðherra.

Í upphafi tóku fáir bátar þátt í veiðunum, en síðastliðin tvö ár hefur bátum fjölgað eftir góða veiði árið 2012, alls 121 sem hafði leyfi í fyrra. Þetta fyrirkomulag hefur reynst ágætlega í alla staði. Góð dreifing sóknar hefur verið um líklegar veiðislóðir og mikið umleikis við veiðar, löndun, flutninga og vinnslu aflans.

Auk þess sem fjölmargar smábátaútgerðir hafa getað lengt hjá sér útgerðartímann, vegna skorts á veiðiheimildum í botnfiski og nýir aðilar stofnað til útgerðar. Á síðustu vertíð stöðvaði ráðherra makrílveiðar smábáta í byrjun september. Samanlagður afli þeirra jafngilti þá 4,9% af heildarafla.

Ljóst var að með því að heimila veiðar til loka september eins og Landssamband smábátaeigenda hafði óskað eftir hefði veiði orðið mun hærra hlutfall heildaraflans. Það var í raun kaldhæðnislegt að sama magn og smábátar veiddu, um 7.500 tonn, var skilið eftir af útgefnum heildarkvóta.

Aflaverðmæti á milli 650 og 700 milljónir og útflutningsverðmæti um tvöföld sú upphæð um 1,4 milljarður. Þar við bætast hundruð starfa sem töpuðust á ætluðum veiðitíma. Fyrir nokkrum vikum lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp um stjórn veiða á NAAtlantshafsmakríl þar sem byggt er á kvótasetningu allra útgerðarflokka.

Þar er gert ráð fyrir að hlutur smábáta verði festur við 5%, sóknarmark aflagt og í stað þess úthlutað kvóta á hvern bát samkvæmt veiðireynslu, þar sem hefðbundnum aðferðum við framkvæmd er vikið til hliðar.

LS mótmælti strax tillögum ráðherra, enda fyrirsjáanlegt að kvótasetning mundi aðeins gagnast örfáum aðilum en helftin af flotanum mundi standa eftir með ónýtta fjárfestingu. Þá væri þróun veiðanna í fullum gangi og líklegt að hæfilegt magn sem veiða ætti við ströndina væri það sama og hjá Norðmönnum, sem eru komnir lengst á þessu sviði,16% heildarkvótans. Allflestir landsmenn vita hvaða viðtökur frumvarpið hefur fengið. Alls hafa 51 þúsund þeirra mótmælt því.

Í dag hefur ráðherra ákveðið með setningu reglugerðar að hafa þessi mótmæli að engu. Að beita svokallaði klækjapólitík þar sem ekki einungis skoðanir tuga þúsunda landsmanna eru hunsaðar heldur bætist þar við sjálft Alþingi.

Gjörningurinn er einn fjölmargra sem ráðherra hefur framkvæmt á þeim tveggja ára tíma sem hann hefur verið við völd og gefur tilefni til þess að segja hingað og ekki lengra. Landssamband smábátaeigenda lýsir hér með yfir fullu vantrausti á embættisfærslu ráðherra og krefst þess að hún verði dregin til baka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina