Hafnargarðurinn verði varðveittur

Hafnargarðurinn fór undir landfyllingu fyrir 76 árum en er enn …
Hafnargarðurinn fór undir landfyllingu fyrir 76 árum en er enn merkilega heillegur. Eggert Jóhannesson

Minjastofnun mun krefjast þess að hafnargarður frá fyrri hluta 20. aldar sem grafinn hefur verið upp á Austurbakka verði varðveittur að minnsta kosti að hluta til. Það mun hafa áhrif á framkvæmdaplön þar og líklega þarf að slaka á kröfum um bílageymslu, að sögn sviðsstjóra Minjastofnunar.

Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í, að sögn Péturs H. Ármansson, sviðsstjóra hjá Minjastofnun. Járnbraut var meðal annars notuð til að flytja efni úr Skólavörðuholti og Öskjuhlíð og er það eina skipti sem lestar hafa verið notaðar á Íslandi.

„Þetta er afar merkur fundur. Menn vissu svo sem af þessum garði þarna og það var búið að benda á áður en skipulag var gert að þessum reit að hafnargarðurinn væri sennilega þarna undir. Menn gerðu sér kannski ekki grein fyrir því að hann væri svona heillegur og fallegur,“ segir hann.

Ekki bara rústir heldur heilt friðað mannvirki

Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Hún var að sögn Péturs í raun hliðið inn í landið um marga áratugi. Allir þeir sem komu til landsins um höfuðstaðinn hafi farið um steinbryggjuna og gengið um Pósthússtrætið. Garðurinn tengist því mannvirki og þeirri sögu.

Pétur segir að Minjastofnun líti svo á að ekki sé aðeins um rústir að ræða heldur heilt mannvirki. Það sé orðið hundrað ára gamalt og sé því friðað. Af þeim sökum verði engar breytingar gerðar á því nema með samþykki Minjastofnunar. Málið snúist um hvort garðurinn verði varðveittur í heild sinni eða að hluti hans verði varðveittur á sínum stað.

„Minjastofnun gerir skýra kröfu um það að einhver hluti þessa mannvirkis fái að standa á núverandi stað og verði sýnilegur í borgarumhverfinu,“ segir Pétur.

Deiliskipulag svæðisins heimilar að þar verði byggðir 21.500 fermetrar ofanjarðar. Til stendur að reisa þar verslunar- og íbúðarhúsnæði. Þá á að grafa bílakjallara á reitnum sem verður í heildina 1.000 fermetrar. Framkvæmdunum á að ljúka árið 2018, að því er kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar. Ef varðveita á hafnargarðinn eins og Pétur lýsir hlýtur það að raska þessum áformum.

„Það mun óhjákvæmilega hafa áhrif á þau framkvæmdaplön sem þarna liggja fyrir. Það er bara spurning hversu mikil þau áhrif verða. Reykjavíkurborg hefur sett kvaðir um að það verði bílageymsla undir öllum reitnum. Það er alveg ljóst að það þarf eitthvað að slaka á þeim kröfum ef þetta á að nást fram,“ segir Pétur.

Uppfært 16:44 Upphaflega stóð í fréttinni að framkvæmdirnar væru Landstólpa og fasteignafélagsins Regins. Hið rétt er að Landstólpi lætur hanna og byggja húsið en Reginn kaupir hluta hússins fullbúið og fær það afhent haustið 2017.

Um 1927-1928, séð yfir miðbæ Reykjavíkur. Hvíta húsið fyrir miðju …
Um 1927-1928, séð yfir miðbæ Reykjavíkur. Hvíta húsið fyrir miðju myndarinnar er hús Eimskipafélagsins. Vinstra megin við það má sjá hafnargarðinn sem nú er verið að grafa upp. Magnús Ólafsson (1862-1937)
mbl.is

Bloggað um fréttina