Dróni kom með giftingarhringana

Svo fór að brúðurin greip hringana.
Svo fór að brúðurin greip hringana. Ljósmynd/Kristín Sigurjónsdóttir

Brúðkaup þeirra Arons Guðnasonar og Hörpu Hauksdóttur sem fram fór á laugardag var um margt óvenjulegt. Þau eru fyrsta parið sem gifst hefur á Bjarnatorgi fyrir utan Siglufjarðarkirkju og var þeim ekið frá athöfninni á gamalli Ford Taunus bifreið sem er sú eina sinnar tegundar á landinu. Mesta athygli vakti þó afhending hringana en sú fór fram með aðstoð drónaflaugar.

„Upphaflega fékk pabbi hugmyndina að þessu. Við eigum þrjár stelpur og það hefði verið erfitt að velja einhverja eina til að fara með hringana. Frændi minn á mjög fínan dróna sem hann  var til í að lána og það var úr,“ segir Aron. Hann segir að upprunalega hafi staðið til að athöfnin færi fram við skógræktina á Siglufirði en þar sem blautt hafði verið í veðri hafi verið ákveðið að færa hana.

Dróninn góðu skilaði hringunum á hárréttu augnabliki.
Dróninn góðu skilaði hringunum á hárréttu augnabliki. Ljósmynd/Kristín Sigurjónsdóttir

 „Það var smá hliðarvindur og það endaði þannig að brúðurin greip pokann en ég klippti hringana úr honum,“ segir Aron og bætir við að brúðkaupsgestir hafi rekið upp stór augu þegar drónann bar að garði.

„Hljóðið í drónanum er svona eins og það sé verið að slá og fólk var svolítið hissa á því að það væri verið að slá þarna beint fyrir aftan. En þá kom í ljós að það var dróninn.“

Drónaflaugar eru mikið notaðar við myndatökur og hafði brúðarparið hugsað sér að taka upp myndskeið af þessum hluta athafnarinnar. GoPro myndavél var um borð en í öllu tilstandinu sem fylgdi því að færa brúðkaupið til klikkaði upptakan. Sem betur fer voru ljósmyndarar á jörðu niðri einnig duglegir að mynda viðburðinn í bak og fyrir.

Aron kveðst alsæll að geta nú loksins kallað sig giftan mann. „Við erum búin að búa saman í tólf ár og eigum þrjú börn svo þetta var löngu tímabært. Það er frábært að geta gert þetta.“

Það var séra Sigurður Ægisson sem gaf parið saman.

Fleiri myndir frá brúðkaupinu má sjá á siglo.is

Dæturnar tóku að sér að vera brúðarmeyjar.
Dæturnar tóku að sér að vera brúðarmeyjar. Ljósmynd/ Kristín Sigurjónsdóttir
mbl.is