Holuhraun er heitur reitur

Hraunið sem myndaðist í gosinu síðasta vetur er um 85 …
Hraunið sem myndaðist í gosinu síðasta vetur er um 85 ferkílómetrar. Gufustróka leggur upp frá jaðri þess, enda er glóandi hiti við yfirborðið. mbl.is/Sigurður Bogi

Holuhraun er veröld í deiglu. Síðan í júní hefur verið greiðfært fyrir alla sæmilega útbúna jeppa í þessa undraveröld á einum afskekktasta stað landsins og síðustu daga hefur þangað verið jöfn og stöðug umferð. Eldgosinu í Holuhrauni lauk 28. febrúar á þessu ári og hafði þá staðið í rétt tæpa sex mánuði. Enn má víða á þessum slóðum finna snarpan hita í hrauninu ef lófi er lagður á jörð. Gufustróka leggur upp frá jaðri þess og þar sem hraunhellan er þykkust er enn rauðaglóð undir.

Til suðurs frá Dreka

„Það hefur verið ofsalega spennandi að vera hér síðustu mánuði. Fyrst að fylgjast með hamförunum og að dveljast hér núna þegar landslagið er gjörbreytt. Vísindamenn sækja mikið hingað og nú flykkjast ferðamenn hingað. Að undanförnu hefur verið nokkuð margt, oft á bilinu 100-200 manns á dag,“ segir Stefanía Eir Vignisdóttir, yfirlandvörður á Öskjusvæðinu. Óhætt er því að segja bæði með tilliti til þess að kraumandi hiti er enn í jörðu og staðurinn fjölsóttur að Holuhraun sé heitur reitur.

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs hafa aðsetur við Drekagil í Dyngjufjöllum og sinna þaðan landvörslu á víðfeðmu svæði. Til suðurs frá Dreka er um 15 kílómetra leið að jaðri Holuhrauns og áherslumál er að þar eða í grennd sé alltaf einhver á vaktinni. Frá Hringveginum við Hrossaborg á Mývatnsöræfum að hraunbrún eru um 115 kílómetrar.

Öryggi og náttúruvernd

„Ég kom á landvarðavaktina hér í október og var fram undir áramót. Þá þurfti að sinna hér ýmsu aðkallandi, svo sem eftirliti, merkingu, að setja upp stikur við vegi og fleira,“ segir Stefanía, sem sneri aftur í júní síðastliðnum. Verkefnin nú segir hún snúa að þjónustu við ferðamenn, svo sem með upplýsingagjöf, fræðslu, viðhaldi og uppbyggingu aðgengis að svæðinu. Í því efni er öryggi ferðamanna og náttúruvernd í fyrirrúmi. Þannig voru nú snemmsumars lagðir göngustígar á tveimur stöðum í úfnu hrauninu, svo sem við austurjaðar þess, þar sem nú hefur myndast heit laug sem vinsælt er að baða sig í.

En áður en að Holuhrauni er komið þarf að sigrast á ýmsum hindrunum. Sendinn vegurinn úr Öskju getur verið þungur yfirferðar og rétt við hraunið vestanvert, þangað sem margir leggja leið sína, þarf að fara yfir nokkuð stórgrýtta bergvatnsá sem sprettur upp úr sandinum. „Vegir eru að báðum gönguleiðum inn á hraunið. Við leggjum mikið upp úr því að reyna að sporna gegn utanvegaakstri. Reyndum því alltaf að taka bílstjóra sem hér fara um tali og leiðbeina þeim,“ segir Stefanía.

Með sínu fólki hefur Stefanía að undanförnu farið fyrir fræðslugöngum um hraunið á fyrrnefndum stað við vesturbrún þess. Þær eru tvisvar á dag; klukkan 10 og 16.

Fyrri ferð dagsins er nú að detta út af dagskránni en síðdegisgangan verður eitthvað lengur. Það mun þó ráðast mjög af aðsókn. Má þó ætla að hún fara að dvína á næstu vikum, en landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs verða þó á svæðinu að minnsta kosti út septembermánuð.

Sýna þarf aðgát þegar stiklað er um úfna breiðu nýja …
Sýna þarf aðgát þegar stiklað er um úfna breiðu nýja hraunsins. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »