Bandaríkjamenn meti varnarþörfina

Bandarísk P-8 Poseidon eftirlitsflugvél.
Bandarísk P-8 Poseidon eftirlitsflugvél. Wikipedia

Komið hefur fram í samtölum Bandaríkjamanna við íslenska ráðamenn að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir stjórnvöld í Bandaríkjunum að auka viðveru bandarísks liðsafla á Íslandi. Frumkvæðið í þeim efnum hefur hins vegar ekki komið frá íslenskum stjórnvöldum og engar viðræður átt sér stað í þeim efnum.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn frá mbl.is en eins og fréttavefurinn fjallaði um í gær skoðaði Robert O. Work, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli í heimsókn sinni til Íslands nýverið þar sem áður var herstöð Bandaríkjamanna. Lét hann þau orð meðal annars falla í tengslum við heimsóknina að hann vildi skoða mannvirki á svæðinu og kanna hvort hægt væri að taka þau í notkun á nýjan leik. Ræddi hann sérstaklega í því sambandi um P-8 eftirlitsflugvélar.

Haldi áfram þátttöku í loftrýmisgæslunni

Bandarískur her kom fyrst til landsins árið 1941 þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst en yfirgaf landið aftur að stríðinu loknu. Bandaríkjamenn sneru síðan aftur til landsins árið 1951 í kjölfar þess að varnarsamningur var gerður á milli Íslands og Bandaríkjanna. Kalda stríðið var þá hafið og var bandarísk herstöð hér á landi allt til ársins 2006 þegar henni var lokað og Bandaríkjaher yfirgaf landið. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna er hins vegar enn í fullu gildi en samkvæmt honum bera Bandaríkjamenn ábyrgð á vörnum landsins.

Bandaríkjamenn sáu um loftrýmisgæslu við Ísland áður en herstöðinni var lokað en í kjölfar þess að Bandaríkjaher yfirgaf landið var skipulögð loftrýmisgæsla sem ýmis ríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa tekið þátt í þar sem herflugvélar hafa komið tímabundið til landsins og sinnt gæslunni. Þar á meðal bandarískar flugvélar. Fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins að íslensk stjórnvöld hafi í samskiptum við Bandaríkin lagt áherslu á að bandaríski flugherinn héldi áfram árlegri þátttöku í loftrýmisgæslu á Íslands og kæmi hingað til æfinga sem boðað væri til. Meðal annars á vegum NATO.

Viðeigandi varnarbúnaður verði til staðar

„Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að bandarísk hermálayfirvöld leggi eigið mat á lágmarksþörf varnarmannvirkja- og búnaðar á Íslandi til að geta framfylgt skuldbindingum Bandaríkjanna sem felast í varnaráætlun Íslands og öðrum varnaráætlunum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Slíkt mat er ein af forsendum þess að íslensk stjórnvöld geti viðhaldið varnarviðbúnaði sem mætir þörfum Íslands hverju sinni og þar sem jafnframt er tekið tillit til rekstrarhagkvæmni,“ segir ennfremur í svarinu. Þá kemur fram að á fundi með Work hafi Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagt áherslu á að viðeigandi varnarbúnaður væri til staðar á Íslandi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Robert O. Work aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Robert O. Work aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert