Refsiaðgerðir ekki leiðin að friði

Maður í Jerúsalem á leið á markaðinn.
Maður í Jerúsalem á leið á markaðinn. AFP

Facebooksíðan Icelandic People Against Boycotting Israel var stofnuð í síðustu viku en tilgangur hennar er að sýna að ekki séu allir Íslendingar hlynntir ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að sniðganga vörur frá Ísrael.

„Ég stofnaði síðuna síðasta miðvikudag. Um leið og ég heyrði þessar fréttir, að borgarstjórn ætlaði að sniðganga vörur frá Ísrael fékk ég slæma tilfinningu. Mér fannst ég hafa verið svikinn og ég veit að fólk í kringum mig fékk sömu tilfinningu. Ég fann að fólk var sárt og reitt,“ segir Ívar Halldórsson, stofnandi síðunnar í samtali við mbl.is. 

„Þegar borgarráð tekur aðstöðu fyrir alla borgarbúa og setja okkur undir ákveðinn hatt út á við er eins og við séum með þá sömu skoðun og þau. Ég fann fyrir því að margir í kringum mig vildu ekki líta svona út í augum annarra og er þessi síða hugsuð fyrir fólk sem vill aðskilja sig frá þessu.“

Ívar segir það mikilvægt að sýna Ísraelum og öðrum að Ísland sé ekki einhuga í þessum aðgerðum og að þær endurspegli ekki vilja allrar þjóðarinnar.

Fengið töluverð viðbrögð erlendis frá

Nú hafa tæplega 1000 manns líkað við síðuna og að sögn Ívars er fjöldinn stöðugt að aukast. „Ég hef fengið talsverð viðbrögð frá erlendu fólki sem hefur skilið fréttirnar þannig að það í rauninni fordæmir ísland sem heild. Ég hef heyrt frá fólki sem finnst þetta vera hatur og rasismi og upplifir þetta sem anti-sem­it­isma. Það eru ekki bara Ísraelar heldur fólk frá Bretlandi og öðrum löndum.“

Ívar segir að þessir erlendu aðilar hafi sýnt síðunni mikið þakklæti fyrir að benda á að Ísland er ekki einhuga í þessu. „Maður finnur fyrir því að fólki léttir við að finna það eru ekkert allir sammála þessu.“

Útbúa lista með íslenskum vörum til að sniðganga

Aðspurður hvort honum finnist að borgarráð hafi farið útfyrir sitt hlutverk með þessari ákvörðun svarar Ívar því játandi. Hann segir það slæmt að ráðið hafi myndað svona sterka skoðun út á við án þess að bera það undir borgarbúa.

„Ég tók eftir því að nú er búið að opna erlenda Facebook síðu sem heitir Boycott Racist Iceland. Hún er alveg ný og ég vona að hún vaxi ekkert mikið. Við höfum reynt að hafa samband við fólk á þeirri síðu og útskýra afstöðu okkar til að lágmarka skaðann. Við höfum útskýrt fyrir fólki að það sé mikill minnihluti hérna sem er á þessari skoðun og meirihlutinn standi með þeim. Ég náði síðan sambandi við síðuhaldarann sem var mjög ánægður að heyra það að þetta væri svona. Ég var líka að hvetja hann til að róa sig en nú eru þeir að útbúa lista yfir íslenskar vörur til að sniðganga,“ segir Ívar og bætir við að í þeim hópi hafi einn sagt honum að margir væru nú að íhuga að sniðganga Icelandair vegna ákvörðunarinnar.

Að sögn Ívars hafa virt samtök frá Ísrael haft samband við hann og boðist til að koma hingað til lands og kynna Ísrael fyrir Íslendingum. „Þetta eru samtök sem eru í því að kynna málefni Ísraels og miðausturlanda. Þeir buðu okkur að senda hingað fólk til að kynna mannúðarstarf Ísraelshers og koma með betra ljós á ástandið.“

Ívar segist nú vera að skoða hvort hann þiggi boðið. „Ég er núna að fá upplýsingar frá þessum aðila. Ég vil auðvitað ekki eitthvað rugl hingað en það mætti samt upplýsa almenning frekar um ástandið. Fjölmiðlar eru að mínu mati svolítið mataðir og það eru margar hliðar sem eru ekkert að koma í ljós. Íslendingar eiga rétt á því að fá að skoða málið frá öllum hliðum.“

Eigum ekki að setja okkur í dómarasætið

Ívar segist ekki eiga bein tengsl við Ísrael fyrir utan það að hann á nokkra ísraelska vini. „Það sem hvetur mig áfram fyrst og fremst er ímynd Íslands út á við. En ég hef kynnt mér málin mjög vel í Ísrael og miðausturlöndum og það er alltaf að koma betur og betur í ljós fjölmiðlar eru ekkert að gefa breiða mynd af þessu og umfjöllunin er mjög einhliða. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er mjög misskilið og meira að segja Sameinuðu þjóðirnar eru ekki sammála um hvernig þetta er í raun og veru,“ segir Ívar. „En svo erum við að setja okkur í dómarasætið og hefja refsiaðgerðir, það er ekki leiðin að friði. Þegar fólk er svona óssamála útum allt um hvað er að gerast  held ég að lítil eyja á miðju Atlantshafi eigi ekki að fara að setja sig í dómarasætið og sakfella.“

Afsökunarbeiðnir og afsagnir eina leiðin

Á borgarstjórnarfundi á morgun verða til­lög­ur um að draga samþykkt borgarstjórnar til baka.Tvær til­lög­ur um málið verða rædd­ar á fund­in­um, ein frá borg­ar­full­trú­um Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar og flug­vall­ar­vina og hin frá Sam­fylk­ingu, Bjartri framtíð, Vinstri græn­um og Pír­öt­um.

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri hefur sagt að til­lag­an yrði dreg­in til baka en að til standi að breyta orðalagi henn­ar og leggja hana aft­ur fram. Í breyttri til­lögu yrði skýrt tekið fram að sniðgang­an næði aðeins til ísra­elskra vara sem fram­leidd­ar væru á her­numdu svæðunum.

Ívar segir að þeir erlendu aðilar sem hann hefur rætt við líti svo á að það sé ekki nóg að draga tillöguna til baka. „Mér fannst eins og fólk myndi ekki sætta sig við það. Ég held að eina leiðin séu afsökunarbeiðnir og afsagnir. Tilfinningin sem ég fæ frá erlendum aðilum er sú að þeim finnist borgarstjórnin vera með anti-semitísk sjónvarmið. Það er erfitt að stroka þetta út.“

Hann segir jafnframt leiðinlegt að gott orðspor Íslands verði fyrir skaða útaf þessu máli. „Við viljum náttúrulega finna lausnir og þetta sé vinalegt. Við erum með svo góðan orðstír og erum að gera góða hluti. Við viljum viðhalda honum og vera vinaþjóð ekki óvinaþjóð.“

AFP
Síðan hefur fengið tæplega 1000
Síðan hefur fengið tæplega 1000 "læk" á nokkrumd ögum. Skjáskot af Facebook
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Ívar segir að eina sem myndi …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Ívar segir að eina sem myndi hafa jákvæð áhrif væru afsökunarbeiðnir og afsagnir. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert