„Svartur blettur í sögunni“

Hernámið hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag.
Hernámið hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, vill að vistheimilanefnd fari yfir atburðina sem urðu á hælinu á Kleppsjárnsreykjum og að ráðist verði í rannsókn á afskiptum stjórnvalda, þeim njósnum sem staðið var fyrir, þeim úrræðum sem gripið var til og þessar stúlkur voru beittar.

Þetta kom fram í máli Katrínar í umræðu um störf þingsíns í dag.

Katrín hóf umræðuna á því að segja að nú standi yfir sýningar á heimildarmyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum þar sem farið sé yfir þær aðstæður sem urðu til þess að fjöldi ungra stúlkna var vistaður á vinnuhæli á Kleppjárnsreykjum. Þær aðstæður hafi verið í kringum hernámið árið 1940.

Hún segir að aðstæðurnar hafi valdið „þvílíkum usla í íslensku samfélagi að gripið var til ótrúlegra ráðstafana til að stöðva samskipti þessara stúlkna sem voru á öllum aldri, allt frá ungum stúlkum upp í konur á sjötugsaldri, við hina erlendu hermenn. Það var meira að segja gengið svo langt að setja neyðarlög til að lækka sjálfræðisaldur úr 20 árum sem þá var niður í 16 ár til að hægt væri að koma höndum yfir þessar ungu konur sem margar hverjar voru af fátækum heimilum, börn einstæðra foreldra. Þær voru sendar í sveit eða á hælið á Kleppsjárnsreykjum og umfjöllunin var öll einstaklega stóryrt. Sett var á laggirnar sérstök ástandsnefnd og rætt um hættulegar vændiskonur sem þyrfti að taka úr umferð.“

Katrín hefur af þessu tilefni ákveðið að leggja fram fyrirspurn til innanríkisráðherra. „Í fyrsta lagi tel ég einboðið að vistheimilanefnd taki upp þetta mál og fari yfir atburðina sem urðu á hælinu á Kleppsjárnsreykjum og hins vegar er annað mál sem líka skiptir máli; að ráðist verði í rannsókn á afskiptum stjórnvalda, þeim njósnum sem staðið var fyrir, þeim úrræðum sem gripið var til og þessar stúlkur voru beittar því ég tel að það sé löngu orðið tímabært. Þessi heimildarmynd og þær rannsóknir sem nú eru í umræðu sýna okkur að við tökum á þessum svarta bletti í sögunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina