Flóttamenn verða líklega fjölskyldufólk

Ólöf Nordal innanríkisráðherra gefur kost á sér í sæti varaformanns …
Ólöf Nordal innanríkisráðherra gefur kost á sér í sæti varaformanns á landsfundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, á von á því að kvótaflóttamennirnir, sem koma innan tíðar til landsins, verði fjölskyldufólk.

Þessu svaraði hún aðspurð í fyrirspurnartíma á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun. Líkt og fram hefur komið er von á hópi fólks úr flóttamannabúðum í Líbanon á næstunni. 

„Hefur verið rætt í hvaða hópum verður valið?“ spurði landsfundargestur. „Er ekki fyrsti kostur að við fáum fjölskyldufólk? Við fréttum af alvarlegum átökum milli trúarhópa í nágrannaríkjum okkar. Við byggjum þjóðfélagið á kristnum gildum,“ sagði í spurningunni.

„Við erum að taka á móti fyrsta hluta kvótaflóttamanna innan tíðar. Það er hópur af flóttamönnum frá Sýrlandi og ríkjum á þessum miklu óróasvæðum. Þetta fólk kemur væntanlega frá Líbanon, geri ég ráð fyrir. Ég á frekar von á því að þetta verði fjölskyldufólk. Ég veit ekki nákvæmlega hverjir þeir verða. Við getum að vissu leyti haft áhrif á það hverjir koma, upp að vissu marki,“ svaraði Ólöf.

„Meginstefið hlýtur að vera það, að við erum þarna að hjálpa fólki sem er í mikilli neyð. Ég er viss um að þetta fólk vill vera heima hjá sér. Það vill enginn vera á vergangi. Það enginn koma og þurfa að hefja nýtt líf í öðru landi vegna þess að það getur ekki lengur búið heima hjá sér. Þannig að við gerum það sem við getum til þess að hjálpa þessu fólki.“

„Ég get þó svarað þessu með þeim hætti að ég á frekar von á því að þetta verði fjölskyldufólk sem hingað kemur,“ sagði Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert