„Vonarstund og stund fyrir lífið“

Í dag er þess minnst að 20 ár eru liðin frá því þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð með þeim afleiðingum að tuttugu fórust. Var í kvöld haldin samverustund í Flateyrarkirkju og segir Fjöln­ir Ásbjörns­son, sókn­ar­prest­ur í Flat­eyr­ar­sókn í Holtsprestakalli, húsfylli hafa verið í kirkjunni.

„Þetta var mjög góð stund,“ segir Fjölnir í samtali við mbl.is og heldur áfram: „Við vorum náttúrulega að minnast þeirra er létust og heiðra minningu þeirra, en einnig vorum við að hugsa um þá sem björguðust og þeirra sem hjálpuðu okkur þegar við þurftum á að halda.“

„Þetta var minningarstund, kærleiksstund, vonarstund og stund fyrir lífið,“ segir Fjölnir, en auk íbúa á Flateyri mættu ýmsir vinir og velunnarar í kirkjuna.

Aðspurður segir hann húsfylli hafa verið á samverustundinni. „Það var eitt af því sem skapaði svo góðan anda í kirkjunni. Það var sæti fyrir alla en menn sátu þétt og hlýddu á fjölbreytta tónlist,“ segir hann, en meðal þeirra sem fluttu tónlistaratriði voru félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, sem betur er þekktur sem KK, og barnakór.

Undir lok stundarinnar flutti Fjölnir ræðu um snjóflóðin og las svo upp nöfn allra þeirra sem létust. Í kjölfarið var mínútuþögn og spilaði KK svo lagið When I think of angel. Segir Fjölnir að það hafi verið mjög tilfinningarík en góð stund.

Viðstaddir kveiktu einnig á útikertum og lögðu þau við minnisvarðann um hamfarirnar. „Að því loknu fóru svo allir í kjötsúpu og var það ekki síður heilög stund,“ segir Fjölnir og bætir við að nær allir sem í kirkjuna komu hafi mætt í súpu, kaffi og konfekt áður en haldið var heim á leið. 

Frétt mbl.is:

„Samhjálpin var einstök“

mbl.is