Kenna læknanemum að hlusta á fólk

Stundum skiptir það sem ósagt er látið meira máli en …
Stundum skiptir það sem ósagt er látið meira máli en hið talaða orð. Þá er gott að kunna að lesa á milli línanna. mbl.is/ Styrmir Kári

„Hvernig er Barbapabbi á litinn“ er líklega ein frægasta prófspurning íslenskrar menntasögu en hún er sögð hafa komið upp á inntökuprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands fyrir mörgum árum.

Við fyrstu sýn hefur spurningin lítið með læknisfræði að gera en þó hún sé fullnákvæm til að leggja haldgott mat á félagsfærni einstaklings minnir hún á að til þess að verða góður læknir þarf meiri þekkingu til en bara þá sem snýr að líffærafræði. Í gegnum árin hefur oft reynst erfitt að festa hendur á nákvæmlega hver sú þekking er og hvernig eigi að kenna hana en ein nýjasta leiðin til að færa hana í form er greinin frásagnarlæknisfræði (e. narrative medicine) sem íslenskir læknanemar njóta nú góðs af.

„Frumkvöðlar í þessari grein áttuðu sig á því að þetta væri besta leiðin til að læra að hlusta á fólk,“ segir Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum. „Það er ekki nóg að gefa læknanema bók í jólagjöf og segja honum að lesa. Fræðimenn geta kennt læknanemunum að skilja undirtextann. Það er er ekki nóg með að við þiggjum fræðilega af þeim því við teljum að þeir geti einnig lær mikið af okkur.

Að greina orðræðu sjúklinga

Hún þakkar Jens Lohfert Jørgensen, fyrrum lektor við Háskóla Íslands, framgang greinarinnar hér á landi en hann bauð henni til ráðstefnu um frásagnarlæknisfræði í Kaupmannahöfn árið 2012.

„Þar var kona frá Bandaríkjunum sem starfaði sem heimilislæknir í New York og það kom til hennar fólk með ýmiskonar bakgrunn og átti stundum erfitt með að greina frá því sem skipti það máli, var kannski að tala um eitthvað annað en það sem raunverulega var að. Hún fór að læra bókmenntafræði beinlínis til þess að verða betri í að greina orðræðu,“ segir Ásdís. „Mér fannst þetta ákaflega spennandi og þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að undirbúa málstofu á Hugvísindaþingi um þetta efni.“

Í kjölfarið fór Ásdís í viðtal hjá Eiríki Guðmundssyni útvarpsmanni. Viðtalið vakti athygli Bryndísar Benediktsdóttur, prófessors í heimilislækningum og kennara í samskiptafræði og hafði hún samband við Ásdísi. Hafði hún þá þegar hafið að nota bókmenntir í sinni kennslu og úr varð að Ásdís og Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í nútímabókmenntum hófu samstarf við læknadeild strax sama haust.

„Læknanemarnir hafa tekið þessu vel. Þetta eru góðir og áhugasamir nemendur og sömuleiðis hafa kennarar í læknadeild tekið okkur vel,“ segir Ásdís og bætir við að það taki þó tíma fyrir fræðigreinarnar tvær að finna sambandi sínu fótfestu „Það er ekki nóg með að læknanemar þurfi að læra að hlusta á sjúklinga heldur þurfum við, bókmenntafræðingar og læknar, að læra að hlusta á hvert annað.“

Meðal þeirra verka sem læknanemar hafa kynnt sér eru skáldsögur eftir íslenska lækna, t.a.m. Lífsmörk eftir Ara Jóhannesson og Krabbaveisluna eftir Hlyn Grímsson.

„Þeir eru báðir að skrifa um lækninn, um vanda læknisins, heilbrigðiskerfið og þetta er gríðarlega  mikilvægt inn í umræðuna. “

Öll að vinna að því sama

Ásdís segir að með tímanum hafi orðið ljóst að ekki dygði að vinna aðeins að frásagnarlæknisfræði innan læknadeildarinnar heldur væri mikilvægt að styrkja greinina innan bókmenntafræðinnar. Þær hafi því fengið til liðs við sig doktorsnema Dagnýjar, Hildi Ýr Ísberg og í haust var svo boðið upp á námskeið sem heitir Bókmenntir og læknisfræði.Þar hefur þeim stöllum borist liðstyrkur í þeim Bergljótu Kristjánsdóttur prófessor og Guðrúnu Steinþórsdóttur doktorsnema hennar en þær leggja til innsýn í svokölluð hugræn fræði.

„Bergljót hefur verið frumkvöðull í þeim rannsóknum og þær taka inn efni eins og tilfinningar, geðshræringar, sársauka sem tengist mikið samskiptum lækna og sjúklinga.“

Ásdís segir þó enn þörf á frekari rannsóknum í greininni og áréttar mikilvægi hennar. Frásagnarlæknisfræði geti stuðlað að því að læknar verði ekki aðeins sérfræðingar í einhverjum ákveðnum líkamshlutum heldur skynji manneskjuna í heild. Segir hún bókmenntafræðinginn sömuleiðis vera að taka breytingum.

„Hann er ekki lengur bara ljóðelskur maður í hægindastól. Eftir að ég kynntist þessum fræðum finnst mér að við séum öll í raun að gera það sama, hvort sem það er með bókmenntafræði eða læknisfræði. Við erum öll að reyna að skilja manneskjuna.“

Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum.
Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum. hi.is
Barbapabbi á litskrúðuga fjölskyldu sem gæti í einhverjum tilfellum hjálpað …
Barbapabbi á litskrúðuga fjölskyldu sem gæti í einhverjum tilfellum hjálpað læknum að skilja unga sjúklinga.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert