Tap RÚV var áætlað 54 milljónir

Höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti.
Höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti. mbl.is/Eva Björk

Fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins í dag að stjórn RÚV hafi áætlað að 328 milljóna tap yrði af rekstri fyrirtækisins rekstrarárið 2015-2016.  Var þá miðað við að útvarpsgjald lækki um áramótin og verði 16.400 krónur. Hið rétta er að stjórnin hefur áætlað að tapið verði 54 milljónir á næsta ári.

Í þeirri áætlun er miðað við að útvarpsgjaldið verði 16.400 krónur.

Hefur fyrri frétt mbl.is verið breytt með þessar nýju upplýsingar í huga.

Samkvæmt heimildum blaðsins var það hins vegar rétt sem fram kemur á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag að stjórnin áætlaði að rekstrargjöld muni aukst úr 5.282 milljónum rekstrarárið 2014-2015 í 5.610 milljónir rekstrarárið 2015-2016. Það er aukning um 328 milljónir.

Samkvæmt heimildum mbl.is gerði áætlun stjórnar RÚV ráð fyrir að 23 milljón króna rekstrarhagnaður verði hjá RÚV rekstrarárið 2015-2016. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er tapið hins vegar 54 milljónir.

Útvarpsgjald mun að óbreyttu lækka úr 17.800 í 16.400 krónur um áramótin.

RÚV sendi síðastliðið föstudagskvöld frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar vegna umræðu um fjárhag fyrirtækisins og eru hún endurbirt hér neðst í fréttinni. Sagði þar meðal annars að ef útvarpsgjaldið lækki muni það kalla á „umtalsverða skerðingu á þjónustu og dagskrá Ríkisútvarpsins“.

Spáðu 369 milljóna tapi rekstrarárið 2015-2016

Nefnd um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007 sendi síðastliðinn fimmtudag frá sér skýrslu þar sem m.a. voru dregnar upp tvær sviðsmyndir af rekstri RÚV næstu ár.

Miðað við óbreytt útgjöld án frekari aukningar í opinberum framlögum og án þess að LSR-lánið hverfi úr efnahag – skuldabréfið stóð í 3,2 milljörðum um síðustu áramót – gerir önnur sviðsmyndin ráð fyrir 369 milljón króna tapi rekstrarárið 2015-2016.

Fram hefur komið að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, telja að ekki sé stuðningur á Alþingi við að hætta við lækkun útvarpsgjalds um áramótin, úr 17.800 krónum í 16.400 krónur.

LSR-bréfið snúi fyrst og fremst að fjármálaráðuneytinu

Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að engin ákvörðun hafi verið tekin um að ríkissjóður taki yfir áðurnefnt skuldabréf við LSR.

Um það mál sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, orðrétt í Morgunblaðinu á laugardaginn var:

„Varðandi umræðu um lífeyrissjóðslánið [fjallað er um LSR-bréfið í grein hér fyrir neðan] hef ég ekki tekið afstöðu til þess. Þetta mál snýr auðvitað fyrst og fremst að fjármála- og efnahagsráðuneytinu.“

Gert ráð fyrir að útvarpsgjald lækki ekki

Tilkynning RÚV til Kauphallarinnar var svohljóðandi:

„Í skýrslu sem nefnd undir forystu Eyþórs Arnalds ritaði og í nokkrum fréttum sem birtar hafa verið um hana er rangt farið með staðreyndir um fjármál Ríkisútvarpsins ohf.

Fullyrt er að Ríkisútvarpið geri kröfu um skilyrt viðbótarframlag til næstu fimm ára og í áætlunum félagsins sé gert ráð fyrir verulega hækkuðu ríkisframlagi, þ.ám. að 3,2 milljörðum króna verði varið til að létta skuldum af Ríkisútvarpinu. Þetta er ekki rétt. Ríkisútvarpið hafði vakið athygli nefndarinnar á að fullyrðingar þeirra í skýrsludrögum væru rangar og jafnframt að þeim væri óheimilt með tilliti til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 að birta upplýsingar sem vörðuðu rekstraráætlanir félagsins, þar með talið ósamþykktar sviðsmyndir, enda höfðu nefndarmenn ritað undir trúnaðaryfirlýsingu þess efnis.

Hið rétta er að stjórn Ríkisútvarpsins hefur samþykkt rekstraráætlun fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki ekki frekar heldur haldist það óbreytt eins og mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað. Sú áætlun verður uppfærð og lögð fyrir stjórn fyrir árslok og mun þá taka til almanaksársins 2016. Einnig liggja fyrir áætlanir sem gera ráð fyrir viðbrögðum félagsins ef forsendur um óbreytt útvarpsgjald ganga ekki eftir í meðförum þingsins. Þær áætlanir fela í sér umtalsverða skerðingu á þjónustu og dagskrá Ríkisútvarpsins.

Í öllum áætlunum stjórnenda Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir hallalausum og sjálfbærum rekstri á næsta rekstrarári, eins og raunin hefur verið á síðastliðnum tólf mánuðum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is