Mikilvægt að fylgjast með lögreglunni

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Sífellt meiri krafa er um að lögregla beri vopn og um auknar valdheimildir og slíkt. Sömuleiðis er krafa um sjálfstætt eftirlit hér á bæ. Alla vega af hálfu okkar Pírata og fleiri. Það er sífellt meiri krafa um aukið fjármagn til lögreglu, sem ég styð, en þó fyrst og fremst til að koma til móts við manneklu og lág laun hjá lögreglunni að mínu mati.“

Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag þar sem hann gerði að umtalsefni sínu fréttir af því að til standi að skammbyssum verði komið fyrir í sérstakri geymslu í lögreglubifreiðum með hliðstæðum hætti og þekkist til að mynda í Noregi. Minnti hann á þingsályktun sem Píratar hefðu lagt fram um slíkt eftirlit. Sagðist hann hafa af því áhyggjur ef til stæði að nota aukið fjármagn til lögreglu, sem tilkynnt hafi verið um nýverið, til þess að kaupa vopnabúnað fremur en að fjölga lögreglumönnum og hækka laun þeirra.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði að umræddum fjármunum ætlað að mæta tilteknum verkefnum hjá lögreglunni en ekki til að mæta launakostnaði. Benti hún á að skýrar reglur giltu um öryggisbúnað lögreglunnar og það væri lögreglunnar að meta hvenær hans gerðist þörf. Lögreglan þyrfti að búa yfir nauðsynlegum búnaði til þess að gæta öryggis borgaranna. 

mbl.is