Ólafur fær Kærleikskúluna í ár

Kærleikskúlan 2015 er eftir Rögnu Róbertsdóttur
Kærleikskúlan 2015 er eftir Rögnu Róbertsdóttur

 Ólafur Ólafsson formaður íþróttafélagsins Aspar, sem  rekur umfangsmikla íþróttastarfsemi fyrir fatlað fólk, hlýtur Kærleikskúluna í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.

Þetta er í þrettánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra selur Kærleikskúluna. Allur ágóði af sölunni rennur til sumar- og helgardvalar fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal. Það er Ragna Róbertsdóttir myndlistarmaður sem hannar kúluna í ár en hún nefnist Landslag, samkvæmt fréttatilkynningu.<p>

„Ólafur  hefur verið starfandi formaður Asparinnar í yfir 30 ár og hefur alla tíð unnið launalaust en af ótrúlegum krafti og ósérhlífni. Hann er óþreytandi í baráttu sinni fyrir því að auka framboð á íþróttagreinum sem standa einstaklingum með fötlun til boða og ötull talsmaður þess að taka upp nýjungar og gera íþróttir meira spennandi og eftirsóknarverðari fyrir iðkendur. Framlag hans til íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi hefur því verið einstakt og ómetanlegt,“ segir í tilkynningu.

Hjalti Geir Guðmundsson afhenti Ólafi kúluna en Hjalti Geir hefur náð góðum árangri í sundi með Öspinni og er það ekki síst Ólafi að þakka sem hefur alla tíð hvatt hann til dáða.

Sala Kærleikskúlunnar stendur frá  5. – 19. desember en hér er hægt að sjá hvar hægt er að kaupa kúluna. 

mbl.is