Veitingavagn brotnaði í spað

„Litla búðin okkar bara brotnaði í spað. Núna erum við að reyna að koma í veg fyrir frekara tjón með því að tína saman spýtnabrak. Það er ekki gott ef það fer að fjúka,“ segir Elísabet Þorvaldsdóttir, annar eigandi veitingavagns og minjagripaverslunar við Seljalandsfoss sem skemmdist mikið í óveðrinu í gærkvöldi. Hún á erfitt með að segja til um framtíð rekstursins. „Við tökum bara klukkutíma í einu. Forgangsatriðið núna er að koma í veg fyrir frekara tjón,“ segir hún og bætir við að ferðamenn á svæðinu hafi hjálpað þeim að tína upp spýturnar.

Elísabet segir það hafa vissulega verið áfall að sjá vagninn í dag. „Þetta var svolítið „sjokk“. En maður verður bara að taka þessu, maður ræður ekki við veðrið.“ Að sögn Elísabetar voru hún og aðrir eigendur vagnsins búin að gera allar ráðstafanir sem hægt var að gera miðað við aðstæður, m.a. festa vagninn niður. Elísabet tekur þátt í rekstri vagnsins ásamt eiginmanni sínum og Kristínu Pálsdóttur og hennar manni. Voru þau að klára þriðja sumarið sitt í rekstri. Hún segir að nú verði bara að koma í ljós hvað verður um reksturinn.

„Núna er bara að tína saman og sjá hvað verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert