1.200 ætla að mótmæla fyrir Kevi

Skjáskot af Facebook

Þegar hafa yfir 1.200 manns staðfest komu sína á Austurvöll á þriðjudaginn til að sýna Kevi, þriggja ára gömlum langveikum dreng frá Albaníu, stuðning. Kevi og fjölskylda hans sótti um hæli á Íslandi en var synjað. Fjölskyldan er nú farin aftur til heimalandsins. Fleiri Albönum var vísað frá landinu, og eitt annað veikt barn, Arjan, var í þeim hópi. 

 Til stendur að stuðningsmenn barnanna komi saman á Austurvelli, fyrir framan Alþingishúsið, kl. 17 á þriðjudag, 15. desember.

Í viðburði sem auglýstur hefur verið á Facebook hefur m.a. skapast umræða um hvort mótmælin eigi að vera þögul. Sumir hvetja til þess að allir komi með bangsa.

Um viðburðinn segir: 

„Kevi er þriggja ára langveikt barn frá Albaníu, fjölskylda hans flúði til Íslands vegna ófullnægjandi læknisþjónustu i sínu heimalandi. Reglurnar flokka þau í ruslatunnu því þau eru frá Albaníu. En drengurinn er langveikur og bæði börnin hafa aðlagast vel hér á leikskóla og skóla og eignast góða vini, faðirinn hefur atvinnurekanda sem styður hann og ábyrgist og þykir vænt um fjölskylduna. Þau eru algjörlega sjálfbær hér á land. Heimilisfaðirinn á á hættu að vera drepinn í Albaníu og þar fær sonurinn ekki þá læknishjálp sem hann þarf á að halda. Hann nær ekki andanum í verstu köstunum og er bara þriggja ára. Getum við tekið höndum saman að hjálpa þeim? Það hlýtur að vera leið. Það skal enginn segja mér að það sé ekki hægt að gera undanþágu af mannúðarástæðum í þessu máli.“

Þá höfðu kl. 17.13 í dag 747 skrifað undir áskorun til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, um að bjóða albönsku fjölskyldunum til Íslands fyrir jól. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert