„Þetta er alls ekki búið“

„Við viljum með þessu styðja við bakið á drengjunum og leggja áherslu á það að málið er ekki komið í höfn,“ segir Una María Óðinsdóttir, skipuleggjandi samstöðufundar á Austurvelli í dag til stuðnings albanskra drengja sem var vísað úr landi í síðustu viku. „Við hvetjum sem flesta til að koma og sýna stuðning. Það er ekki líðandi að þessi drengir hafi verið sendir úr landi.“

Mál drengjanna og fjölskyldna þeirra hefur vakið athygli en þeir eru báðir langveikir. Fjölskyldunum var neitað um hæli og vísað úr landi. Þau eru nú aftur komin til Albaníu og hafa íslenskir læknar haldið því fram að í heimalandinu muni drengirnir ekki fá þá læknisþjónustu sem þeir þurfa. Annar þeirra er hjartveikur en hinn með slíms­eigju­sjúk­dóm sem er lífs­hættu­leg­ur. 

Fyrr í dag var greint frá því á mbl.is að fjölskyldurnar hafi báðar sótt um íslenskan ríkisborgararétt og eru umsóknirnar nú í skoðun hjá allsherjarnefnd Alþingis. Una María fagnar þeim fregnum en segir enn mikilvægt að sýna fólkinu stuðning. „Þetta er alls ekki búið, málið er komið í betri farveg en þessu er ekki lokið.“

Fundurinn hefst klukkan 17. Ræðumenn verða Una María, ásamt Bergi Þór Ingólfssyni, Unni Ösp Stefánsdóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Auði Jónsdóttur. Þar að auki munu Lay Low og Magga Stína & barnakór flytja fallega tónlist. Á síðu viðburðarins á Facebook er fólk beðið um að koma á Austurvöll með kerti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert