Fæddist á stofugólfinu heima

Fjölskyldan í skírn Bryndísar Lenu Sigurðardóttur.
Fjölskyldan í skírn Bryndísar Lenu Sigurðardóttur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Sigurður Aðalgeirsson og unnusta hans Hólmfríður Guðmundsdóttir eignuðust dóttur á stofugólfinu heima hjá sér í Noregi. Hlutirnir gerðust hratt og enginn tími var til þess að keyra upp á spítala. Sigurður tók því á móti dóttur sinni og er skráður sem ljósmóðir hennar á fæðingarskírteininu. 

Laugardaginn 10. október héldu Sigurður og unnusta hans Hólmfríður upp á tveggja ára afmæli eldri dóttur sinnar, Sóleyjar Rósar. Dagurinn eftir átti að fara í rólegheit og voru þau búin að ákveða að taka saman dót fyrir spítalann en áætluð koma barnsins var þann 19. október. „Við fórum bara alsæl að sofa þarna á laugardeginum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Um nóttina missti Hólmfríður vatnið og þá voru hlutirnir fljótir að gerast. „Við vöknuðum og ég klæddi Sóleyju Rós í föt og við ætluðum að drífa okkur upp á spítala.“ Sigurður fór með Sóleyju út í bíl en þegar hann kom aftur inn lá Hólmfríður á gólfinu og tjáði honum að barnið væri að koma.

„Ég hljóp því aftur út í bíl, sótti Sóleyju og hringdi upp á spítala og bað þá um að koma.“ Sigurður segir að starfsfólk spítalans hafi verið pollrólegt í símanum og ekki áttað sig á því hversu stutt væri í raun og veru í barnið. „Það var ekki fyrr en ég fór að kalla hátt í símann og sagði þeim að ég væri farinn að sjá í kollinn á barninu að þeir áttuðu sig á alvarleika málsins. Ég lagði símann frá mér og sá að barnið var að fara að koma. Konan mín var á orginu og einnig eldri dóttirin. Ég hélt ég yrði ekki eldri.“

Á þeirri stundu birtist nágranni þeirra Sigurðar og Hólmfríðar í dyrunum en hann er á áttræðisaldri. „Hann kom á harðahlaupum og greip Sóleyju með sér. Fyrst hugsaði ég hvað í ósköpunum væri að gerast en var ánægður með hjálpina.“

Rosaleg upplifun 

Þá tók alvaran við. Sigurður sagði Hólmfríði að rembast og barnið byrjaði að koma út. „Fyrst stoppaði hún á kjálkanum og það var erfitt að koma honum út. Ég var stressaður og vissi ekkert hvað ég ætti að gera en eftir smá stund kom höfuðið út. Þá stoppaði hún aftur af því að axlirnar komust ekki út.“

Sigurður segist þá hafa verið orðinn hræddur þar sem að barnið var farið að blána. „Ég var orðinn agalega hræddur og byrjaði að toga á móti á meðan hún rembdist.“

Eftir smá stund kom svo litla stúlkan í heiminn. „Fyrst var hún alveg blá og máttlaus en ég byrjaði að strjúka henni og klappa henni á bakið og nudda hana. Svo stakk ég puttanum upp í hana og þá allt í einu vaknaði hún, hóstaði og byrjaði að gráta.“

Sigurður klæddi sig úr bolnum og vafði honum utan um dóttur sína sem hann lagði svo í fang móður sinnar. „Þetta var það rosalegasta sem ég hef upplifað.“

Um fimm mínútum seinna kom sjúkrabíllinn og þá var klippt á naflastrenginn. „Þeir komu og sögðu að allt liti vel út, bæði hjá móður og barni og buðu mér í leiðinni starf á spítalanum,“ segir Sigurður. Hann segist þó hafa afþakkað starfið þar sem að þessi upplifun hafi verið nóg. Hann fór svo og sótti Sóleyju Rós sem var í góðu yfirlæti hjá nágrönnum sínum.

Bæði móður og barni heilsast vel og hefur unga stúlkan hlotið nafnið Bryndís Lena Sigurðardóttir.

Fjölskyldan fluttist búferlum í sumar til Hønefoss í Noregi þar sem að Sigurður starfar sem bifvélavirki. Hólmfríður er heima með Bryndísi Lenu en Sóley Rós er á leikskóla.

Móður og barni heilsast vel.
Móður og barni heilsast vel. Ljósmynd/Úr einkasafni
Fjölskyldan er búsett í Noregi.
Fjölskyldan er búsett í Noregi. Ljósmynd/Úr einkasafni
Sigurður ásamt dætrum sínum.
Sigurður ásamt dætrum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert