Ökumaður og farþegar í fangageymslu

Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði för ökumanns um eitt leytið í nótt en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Nokkuð magn fíkniefna fannst í bifreiðinni og voru ökumaður og tveir farþegar handteknir og gista þremenningarnir í fangageymslu í nótt.

Alls komu rúmlega sextíu mál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 19 í gærkvöldi þar til klukkan sex í morgun.

Í nótt var í tvígang tilkynnt um umferðaróhöpp en í öðru tilvikinu var ekið á þrjár kyrrstæðar bifreiðar og stungu ökumaður og farþegi af frá vettvangi. Þeir voru hins vegar handteknir skömmu síðar og er málið í rannsókn lögreglu.

Um miðnætti var tilkynnt að bifreið hefði verið ekið á staur og kvaðst ökumaður telja að hann hafi sofnað undir stýri.

Á tíunda tímanum var tilkynnt um líkamsárás til lögreglunnar í Hafnarfirði. Sá sem varð fyrir árásinni hlaut minniháttar meiðsl og vitað er hver árásarmaðurinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert