Frá Wall Street til Akraness

Jenna segir að Íslendingar hafi tekið ákaflega vel á móti …
Jenna segir að Íslendingar hafi tekið ákaflega vel á móti sér með opnum örmum. Morgunblaðið/Guðrún Vala Elísdót

Áður en Jenna Gottlieb kom í fyrsta sinn til Íslands vissi hún fátt annað um landið en að Björk og Sigurrós væru héðan. Enginn sem hún þekkti hafði komið hingað en hún hafði á tilfinningunni að Ísland væri rólegt og kyrrlátt land. Jenna bjó þá í New York-borg, vann sem blaðamaður og skrifaði greinar um viðskipti; fjármál og fjárfestingar. Fyrsta heimsóknin til Íslands var í maí 2006 og varði í fimm daga.

„Ég var hefðbundinn ferðamaður, fór gullna hringinn, í Bláa lónið og í stutta ferð um Suðurlandið. Ég þráði kyrrð og ró eftir allt atið á Wall Street og ég viðurkenni að ég varð fyrir miklum áhrifum af Íslandi, svo miklum að ég kom aftur fjórum mánuðum síðar.“

„Ísland talaði til mín“

Jenna, sem alin er upp í Queens í New York, hafði kynnst tilvonandi eiginmanni sínum, Birni Lúðvíkssyni, í fyrstu ferðinni í gegnum sameiginlegan vin. Þau kynni höfðu þó ekki beinlínis áhrif á að hún kom aftur. „Nei, við vorum bara vinir þá, en eins og ég sagði hafði ég orðið fyrir upplifun. Ég veit að það hljómar eins og klisja þegar ég segi að Ísland hafi talað til mín á einhvern hátt sem enginn annar staður hafði áður gert. Ég fann fyrir sköpunarkrafti, mig langaði til að skrifa og Ísland vakti eitthvað í mér sem ég get ekki útskýrt almennilega.“

Þegar Jenna kom í annað sinn til Íslands var hún í 10 daga og skoðaði meira af landinu, m.a. fór hún í hvalaskoðun og segir að sér hafi aldrei orðið eins kalt á ævinni. Það kom þó ekki í veg fyrir að hún kom næst í febrúar 2007. „Þá hélt fjölskylda mín að ég væri endanlega gengin af göflunum, en það var bara einhver orka sem dró mig hingað. Í þeirri ferð upplifði ég vetrarveður, kulda, myrkur, illviðri og norðurljósin en ég fann að ég gat alveg elskað Ísland að vetrarlagi.“ Jenna segist reyndar ekki vera mikið fyrir sól hvort eð er, og myrkið geti verið ansi notalegt.

Strembið að læra íslensku

Eftir að hafa farið aftur heim til New York tók hún í framhaldinu þá ákvörðun að flytja til Íslands og læra íslensku í Háskólanum. Hún vann sem lausapenni í blaðamennsku ásamt því að stunda námið, sem hún segir að hafi verið ansi strembið. „Þarna var ég, kona á fertugsaldri, með skólasystkinum um tvítugt sem áttu auðvelt með að læra málið og mér leið eins og ég væri algjör auli. Það varð úr að ég hætti um áramót og fór aftur heim til New York, aðallega þó vegna breyttra fjölskylduaðstæðna þar ytra.“

Jenna hélt áfram í blaðamennskunni en saknaði Íslands. „Allan þennan tíma vorum við Björn vinir og sú vinátta var mér mikilvæg. Við héldum sambandi og þar kom að vináttan þróaðist í ást, nokkuð sem við höfðum ekki gert ráð fyrir, og enn einu sinni var ég á leiðinni til Íslands, nú árið 2012.“ Þau ákváðu að láta reyna á sambandið og aftur fór Jenna í Háskólann og nú í framhaldsnám í stjórnmálafræðum, en hún er með BA-gráðu í þeim fræðum frá University of Connecticut.

Mjög hamingjusöm á Íslandi

„Við Björn erum bæði mjög hagsýn og þegar árið var að líða undir lok ræddum við hvert samband okkar stefndi. Við ákváðum að gifta okkur og ég vann áfram við skrif fyrir t.d. Associated Press, The Independent og Quartz í Bandaríkjunum og hérlendis fyrir Iceland Review Icelandic Times og Icelandair Magazone.

Íslendingar hafa tekið mér opnum örmum. Það var ekki í mínum plönum að eiga heima á Íslandi en nú hefur það gerst og ég er mjög hamingjusöm með það,“ segir Jenna, en þau Björn búa á Akranesi. Hún segir markmiðið vera að læra íslenskuna vel, enda skilji hún flestallt en sé feimin við að tala.

Vildu fá sjónarhorn einhvers sem byggi hér

Jenna heldur úti vefsíðunni www.jennagottlieb.com og hefur fengið verkefni í gegnum hana. „Og það var einmitt þannig sem ég fékk tilboð frá Avalon, sem er útgáfufyrirtæki í Kaliforníu sem gefur út ferðabækur. Það hefur m.a. gefið út bækur um ríki Bandaríkjanna, Suður-Ameríku en fáar um Evrópulönd.“

Hún segir flestar ferðabækur skrifaðar af ferðafólki en ekki þeim sem eiga heima í viðkomandi landi. Avalon vildi fá sjónarhorn einhvers sem ætti heima hér og gæti sagt frá lífinu á Íslandi eins og það er. „Mér fannst þetta góð hugmynd og hafði líka ákveðin atriði í huga sem ég vildi koma áleiðis. T.d. akstur á íslenskum vegum að vetrarlagi, sem er stórhættulegur fyrir fólk sem er óvant snjó, að aka ekki utan vega, um að tjalda ekki hvar sem er, að gæta öryggis á ferðalögum og láta vita um ferðir sínar. Ég vildi upplýsa ferðamenn um hlutverk björgunarsveita og hvetja fólk að sýna ábyrgð og góða umgengni.“

Jenna fór um allt landið í efnisöflun og segist hafa komið á marga staði sem hún hafði ekki komið til áður. „Það var allt svo fallegt og stórkostlegt en ef ég ætti að nefna einhvern stað sem mér finnst flottastur verð ég að segja Snæfellsnesið. Þar eru gríðarlegar andstæður í landslagi, ólík birta og stórbrotin náttúra.“ Bókin skartar mörgum myndum og flestar tók maðurinn hennar, en aðrar eru frá vinum og einhverjar tók hún sjálf.

Bókin, sem heitir Moon Iceland, kemur út í apríl en hægt er að panta hana fyrirfram á Amazon. Aðspurð segist hún ekki vita hvort bókin verði fáanleg á Íslandi en dettur einna helst Eymundsson í hug. Nú þegar þetta verkefni er á enda situr Jenna ekki auðum höndum heldur tekst á við skrif fyrir Iceland Review og fleiri tímarit.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert