Geta ekki krafist fjármögnunarupplýsinga

Svona mun moska Félags múslima líta út. Höfundar tillögunnar eru …
Svona mun moska Félags múslima líta út. Höfundar tillögunnar eru arkitektarnir Gunnlaugur Stefán Baldursson og Pia Bickmann

Reykjavíkurborg er ekki stætt á því að krefjast upplýsinga um fjármögnun kirkjubygginga eða annarra tilbeiðsluhúsa. Þetta kemur fram í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, sem lögð var fram á borgarráðsfundi í gær.

Á fundinum lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram bókun þar sem þeir gagnrýndu að þrátt fyrir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði látið þau ummæli falla snemma á síðasta ári að fjárframlag frá Sádi Arabíu vegna byggingar mosku í Reykjavík þarfnaðist skýringa væri áleitnum spurningum ósvarað.

„Við gerum alvarlegar athugasemdir við það að upplýsingaöflun borgarinnar í þessu máli skuli ekki hvíla á formlegri upplýsingagjöf frá viðkomandi félagi heldur misvísandi ummælum í fjölmiðlum,“ segir í ályktun fulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Hæpið að binda úthlutanir skilyrðum

Á fundinum í gær var samþykkt tillaga borgarstjóra, dagsett 19. janúar 2016, þar sem borgarráð samþykkir að vekja athygli Alþingis á því að ekki hvílir lagaskylda á trúfélögum um að upplýsa um hvernig er staðið að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa. „Þá beinir borgarráð þeim tilmælum til allra trúfélaga að gera grein fyrir fjármögnun slíkrar uppbyggingar, þótt lagaskylda sé ekki fyrir hendi,“ segir í tillögunni.

Þar er vísað til svara borgarlögmanns og mannréttindastjóra við fyrirspurn um fjármögnun bygginga mosku en í svari mannréttindastjóra, dagsettu 7. desember 2015, er vitnað í minnisblað borgarlögmanns frá 17. september 2013, þar sem segir m.a.:

„Sökum afdráttarlausrar skyldu að lögum til að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur verður að teljast afar hæpið að binda slíkar lóðaúthlutanir skilyrðum, s.s. um að viðkomandi söfnuður sýni fram á fjármögnun kirkjubyggingar enda þekkt að slíkar byggingar eru að miklu leyti fjármagnaðar með framlögum og styrkjum, s.s. úr Kirkjubyggingarsjóði eftir því sem framkvæmdum vindur fram. Með vísan til hinnar almennu jafnræðisreglu yrðu slík skilyrði heldur ekki sett gagnvart öðrum trúfélögum.“

Þess ber að geta að tilefni umsagnar borgarlögmanns 2013 voru tillögur sem ræddar höfðu verið í borgarráði, þess efnis að kveðið yrði á um að trúfélög gerðu grein fyrir fjármögnun framkvæmda áður en til lóðarúthlutunar kæmi, til að reyna að tryggja að af þeim yrði.

Moskumálið er enn til umfjöllunar á vettvangi borgarinnar en fulltrúar …
Moskumálið er enn til umfjöllunar á vettvangi borgarinnar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja áleitnum spurningum um fjármögnun moskunnar ósvarað. mbl.is/Styrmir Kári

Í svari sínu, dagsettu 19. janúar 2016, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks segir borgarstjóri m.a. að Reykjavíkurborg hefði markað sér þá stefnu árið 1999 að gera ekki upp á milli trúfélaga þegar kemur að lóðaúthlutunum eða undanþágu frá gjaldtöku af lóðum eða tilbeiðsluhúsum trúfélaga.

Með vísan til jafnréttissjónarmiða, minnisblaðs mannréttindastjóra og umsagnar borgarlögmanns verði því ekki séð að lagaskylda hvíli á trúfélögum að upplýsa um hvernig staðið er að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa. Borgarráð ætti hins vegar að beina þeim tilmælum til allra trúfélaga að gera grein fyrir fjármögnun slíkrar uppbyggingar.

Erlend fjármögnun tíðkast um alla Evrópu

Í minnisblaði mannréttindastjóra er m.a. fjallað um álit Fjölmenningarborga (e. Intercultural Cities) á fjármögnun til byggingar mosku, en Fjölmenningarborgir er verkefni á vegum Evrópuráðsins sem Reykjavíkurborg er aðili að.

Það var Reykjavíkurborg sem kallaði eftir álitinu og fór þess á leit að fulltrúar þeirra borga sem koma að verkefninu upplýstu  hvort upp hefðu komið álitamál um fjármögnun erlendra aðila við moskubyggingar.

Niðurstaðan var sú að erlend fjármögnun moskubyggingar á sér stað í nærri öllum ríkjum Evrópu. Bann við erlendri fjármögnun, líkt og sett var í Austurríki, er umdeilt en það á einnig við um þau tilfelli þegar fjármagnið kemur frá ríki þar sem mannréttindi eru ekki í hávegum höfð.

Þó virðist vera ljóst að stuðningsmenn moskubygginga séu sammála um að mikilvægt sé að rannsaka hvaðan fé til framkvæmdanna kemur og stuðla að umræðu en brýnt sé að huga að því að öfgahópar misnoti ekki umræðuna um fjármögnun til að ná fram markmiðum sínum.

Í minnisblaði frá Fjölmenningarborgum eru tiltekin valin dæmi um moskubyggingar, m.a. í Strassborg, þar sem moskan var fjármögnuð þannig að 39% fjármagnsins kom frá Marokkó, 26% frá staðaryfirvöldum, 14% frá Sádi Arabíu og Kúveit, og 26% frá söfnuðinum.

Þá kemur einnig fram að stærstu erlendu styrktaraðilar moska í Þýskalandi eru Sádi Arabía, Íran og Tyrkland, en aðilar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa fjármagnað moskur og tengdar byggingar á Írlandi.

Erlend fjármögnun moskubyggingar tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þessi moska …
Erlend fjármögnun moskubyggingar tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þessi moska er í Istanbul en Tyrkland er meðal þeirra ríkja sem er hvað duglegast við að fjármagna moskuframkvæmdir í Þýskalandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert