Skátarnir gistu úti í frostinu

„Þetta heppnaðist alveg stórkostlega vel og veðrið var frábært þrátt fyrir mikinn kulda,“ segir Jón Andri Helgason, verkefnastjóri og mótsstjóri Skátasambands Reykjavíkur. Um helgina fór fram vetrarmót Reykjavíkurskáta á Úlfljótsvatni. Um 150 skátar á öllum aldri skemmtu sér saman í alls kyns leikjum og þrautum.

„Við vorum í skemmtilegu basli við að halda krökkunum heitum en allan laugardaginn vorum við í leikjum úti,“ segir Jón Andri. Farið var í ýmsa skátaleiki, póstaleik, klifur, sig, skyndihjálp, kyndlagerð og snjóflóðaæfingar. Á kvöldin voru svo haldnar skátakvöldvökur auk þess sem farið var í næturleiki.

Elstu skátarnir gistu í tjöldum úti í frostinu. „Við notum kamínur til að hita tjöldin upp þannig að þau eru hlý þegar við förum að sofa,“ segir Jón Andri. Hann viðurkennir þó að það hafi verið frekar kalt að vakna um morguninn í tjaldinu þar sem að glóðin voru búin. „Þetta var þó mjög þægileg leið til að vakna. Maður svaf ekki of lengi og náði að vekja krakkana í morgunmat.“ Yngri krakkarnir gistu í skálum á svæðinu.

Hann segir mótið hafa heppnast vel þrátt fyrir mikinn kulda. „Það var lítill vindur í gær en það blés aðeins í dag á okkur þannig að við færðum okkur inn. Ég held að vindkælingin hafi verið um mínus 20 stig.“

Markmiðið með mótinu er að efla vetrarútivist skáta í Reykjavík sem og að auka samvinnu milli skátafélaganna. Í Reykjavík starfa átta skátafélög sem koma öll að undirbúningi og framkvæmd mótsins. Þetta er í annað skipti sem mótið er haldið en Jón Andri telur að það sé komið til að vera. „Meðan að krakkarnir hafa áhuga á þessu þá höldum við áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert