Biðin á biðlistum lengist

Þau börn og ungmenni sem bíða eftir því að komast í meðferð hjá BUGL líða mest fyrir tímabundið rask á starfsemi vegna viðgerða á húsnæði deildarinnar. Bráðatilfellum og þeim sem eru í meðferð er ennþá sinnt en vonast er til starfsemin komist í fyrra lag á næstunni að sögn Jóns Hilmars Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Kvenna- og barnasviðs Landspítalans.

Öll bráðamál göngudeildar BUGL færðust í dag yfir á bráðamóttöku Barna hjá Barnaspítala Hringsins í dag auk símaþjónustu.

Fréttastofa RÚV greindi frá því á dögunum að slæleg vinnubrögð verktaka sem nú væri hættur rekstri hefðu orðið til þess að myglusveppur hefði komið upp í húsnæðinu, sem er nýlegt, og ollið heilsubresti hjá starfsfólki. 

Verkfræðistofan Efla hefur umsjón með aðgerðum sem hafa staðið yfir í vetur og eru nú á lokastigi en fundað verður um niðurstöður mælinga og ástand hússins á morgun. Jón Hilmar segist bjartsýnn á að þær niðurstöður verði jákvæðar og í kjölfarið verði hægt að undirbúa að starfsmenn sem hafi verið óvinnufærir snúi aftur á deildina.

Mygla sé þó flókið fyrirbæri og einstaklingsbundið sé hvernig einkenni lýsa sér og hvað veki þau hjá fólki. Því sé erfitt að segja með vissu hvenær fólk geti snúið aftur til vinnu og starfsemin komist í fyrra horf.

mbl.is kom við á deildinni í dag þar sem framkvæmdir standa yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert