Reyndi að brjóta nálgunarbann úr fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Karlmaður var á föstudaginn dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands, þar af 9 mánuði skilorðsbundna, fyrir brot gegn valdstjórninni, líkamsárás, akstur undir áhrifum fíkniefna og að hafa brotið nálgunarbann sem barnsmóðir hans og fyrrum sambýliskona hans hafði fengið sett á hann. Reyndi hann meðal annars að brjóta nálgunarbannið með að senda henni bréf úr fangelsi þar sem hann afplánaði fyrri dóm.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa hrækt á lögreglumann þar sem hann var í fangageymslu lögreglunnar. Þá reyndi hann einnig ítrekað að bitið og reynt að bíta í hægri upphandlegg lögreglumanns við skyldustörf og sparka í hné annars lögreglumanns.

Þá braut hann gegn nálgunarbanni þar sem honum hafði verið bannað að setja sig í samband við barnsmóður og fyrrum sambýliskonu sína í eitt ár frá og með 15. maí í fyrra. Sendi maðurinn henni bréf í september sem konan móttók og þá reyndi hann einnig að senda úr fangelsinu að Litla-Hrauni annað bréf, en það var handlagt af fangavörðum.

Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa veist með ofbeldi að öðrum manni, en dóttir hans hafði lent í árekstri við ákærða. Þegar faðirinn mætti á staðinn sagði hann að ákærði hafi látið öllum illum látum og því hafi hann spurt hvort ákærði væri að ráðast á krakkann. Í leiðinni hafi hann ýtt við ákærða sem hafi í framhaldinu umturnast og lamið föðurinn, hrint honum og „barið eins og harðfisk“ í andlit og axlir. Ákærði sagði rétt að hann hafi ýtt honum en neitaði að hafa lamið föðurinn.

Að lokum var maðurinn fundinn sekur um að hafa brotið gegn umferðarlögum með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en í blóði hans mældist tetrahýdrókannabínól.

Þótti dómnum rétt að dæma manninn í 12 mánaða fangelsi, en þar af 9 mánuði á skilorði. Þá var honum gert að greiða 270 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og að vera sviptur ökurétti í 2 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert