Heimsæki ekki ættingja og vini

Mikilvægt er að aðstandendur sem eru með öndunarfæraeinkenni eða uppköst/niðurgang …
Mikilvægt er að aðstandendur sem eru með öndunarfæraeinkenni eða uppköst/niðurgang láti vera að heimsækja ættingja og vini á Landspítala. Ómar Óskarsson

Starfsfólk bráðamóttöku Landspítala greinir mikla aukningu í komu sjúklinga með inflúensulík einkenni. Þeim sem hafa greinst er einnig að fjölga en fjöldinn hefur nú tvöfaldast milli vikna.

Þetta kemur fram á vefsíðu Landspítalans

Algengasti stofninn í faraldrinum nú er inflúensa A H1 N1 2009 en einnig hafa greinst nokkur tilfelli af inflúensu B. Bóluefnið virðist vernda vel gegn A hlutanum, aðeins óljósara er með B hlutann.

Inflúensan smitast með snertismiti og mögulega með dropasmiti (hósti eða hnerri). Einkennalausir eða einkennalitlir einstaklingar geta verið smitandi.  Meðgöngutíminn er yfirleitt 2-3 dagar en getur verið 1-4. Einkennin eru hár hiti, beinverkir, öndunarfæraeinkenni og jafnvel ógleði, uppköst og niðurgangur (algengast hjá börnum)

Sjúklinga með staðfesta inflúensu má einangra saman ef ekki er möguleiki á einbýli. Leiðbeiningar um notkun á veirulyfjum koma á morgun frá sóttvarnarlækni. 

Mikilvægt er að aðstandendur sem eru með öndunarfæraeinkenni eða uppköst/niðurgang láti vera að heimsækja ættingja og vini á Landspítala meðan einkennin ganga yfir þar sem sjúklingar hafa lent í því að smitast af sínum veiku aðstandendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert