Harpa vann í Hæstarétti

„Ég ætla ekki að leyna því að ég er alveg svakalega ánægður með þetta. Við erum búin að eyða fjórum árum í þetta,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu í samtali við mbl.is en í dag ógilti Hæstiréttur úrskurð yfirfasteignanefndar frá 30. maí 2012 þar sem staðfest var ákvörðun Þjóðskrár um fasteignamat Hörpu frá árinu 2011. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þurfti Harpa að greiða um 400 milljónir króna í fasteignagjöld á ári. Halldór segir að rekstur Hörpu standi ekki undir þess háttar greiðslum. 

„Úrskurðurinn í dag þýðir að það þurfi að endurmeta húsið,“ segir Halldór en fasteignamatsvirði hússins er í dag 22 milljarðar. „Við erum að borga 380 milljónir í fasteignagjöld á þessu ári. Rekstur sem skilar 1000 milljónum á ári getur það ekki, sama hvað við reynum.“

Harpa stefndi Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg en borgin var sýknuð í Hæstarétti í dag. Í maí á síðasta ári féllst Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur á úr­sk­urð yf­ir­fa­st­eigna­mats­nefnd­ar að fast­eigna­matsvirði Aust­ur­bakka 2 sé rúm­ir 17 millj­arðar króna. Því var síðan áfrýjað til Hæstaréttar.

Aðspurður hvort að úrskurður Hæstaréttar í dag hefði komið honum á óvart segir Halldór að honum hafi alltaf fundist stjórn Hörpu verið með mjög réttmætar röksemdir í málinu. „En eins og þú veist fara réttmæti og lög ekki alltaf saman. En ég get ekki betur séð en að það hafi verið tekið tillit til okkar röksemda. Það sem við vildum er að horft yrði til tekjumöguleika hússins þegar það var metið ekki bara byggingakostnaðar.“

Í dómi Hæstaréttar er Þjóðskrá Íslands gert að greiða Hörpu 5 milljónir króna í málskostnað í héraði og Hæstarétti. Málskostnaður fellur niður að öðru leyti. 

Fyrri frétt mbl.is: Fasteignamat Hörpu 17 milljarðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert