Íslenska veðráttan herjar á vegakerfið

Holur finnast í götum um allt höfuðborgarsvæðið. Mynd úr safni.
Holur finnast í götum um allt höfuðborgarsvæðið. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins er víða farið að láta á sjá eftir vetur sem hefur reynst því erfiður. Eiður Guðmundsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Kópavogs segist vita til þess að ástandið sé víða slæmt. 

„Malbik fer afar illa í svona veðráttu. Þegar hlánar og frýs svona til skiptis þá sprengir vatnið sig niður í rifur. Rigningin skolar svo undan og þá aukast skemmdirnar enn frekar. Allt hjálpast þetta að, frost, þíða, rigningar og svo náttúrulega saltið,“ segir Eiður og bætir við að veður leggist meira á vegakerfið hérlendis heldur en víða annars staðar.

Öruggast að tilkynna lögreglu

„Við erum með þjónustuflokka sem fara í viðgerðir um leið og fréttist af holum sem geta verið hættulegar. Okkar menn eru líka sífellt á vaktinni að fylgjast með. En það kemur ekki í veg fyrir að það geti komið holur sem við vitum ekki af.“

Loks segir hann að öruggast sé fyrir fólk að tilkynna lögreglu þegar það kemur fram á holur sem valdið geti hættu. 

„Það er langöruggasta leiðin og þeir hafa þá samband við okkur. Síðan erum við alla daga með bakvakt utan vinnutíma. Við viljum hvetja fólk sem verður vart við hættulegar holur, sem sprengt geta dekk til dæmis, til að láta lögregluna vita strax. Við sendum þá menn til viðgerðar um leið og við fáum fregnir af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert